Konur sem eru fórnarlömb siðblindra karla
Hvernig konur höfða einkum til siðblindra og hvað ber að varast?
* Svo virðist sem siðblindir sækist fyrst og fremst eftir konum sem á einhvern hátt eiga undir högg að sækja, eru einmana eða veikar fyrir á einhvern hátt (t.d. andlega). Kaldlynd misnotkun hinna einmana er aðalsmerki siðblindra.1
Einn sem við rannsökuðum var vanur að leita uppi þunglyndar, óhamingjusamar konur á börum fyrir einhleypa. Eftir að hafa flutt inn hjá einni slíkri konu sannfærði hann hana um að hún þyrfti bíl og seldi henni síðan sinn eigin bíl fyrir fjögur þúsund dollara. Svo stakk hann hreinlega af áður en gengið var frá formsatriðum um bílakaupin - á bílnum auðvitað. Hún skammaðist sín of mikið til að kæra hann.
Robert D. Hare. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, s. 153.
* Bent hefur verið á að þeir hafi óhugnalega gott auga fyrir konum sem eru móðurlegar í eðli sínu, þ.e.a.s. sem vilja hjálpa og aðstoða aðra af bestu getu. Margar slíkar konur vinna við umönnunarstörf, s.s. hjúkrun, félagsráðgjöf eða annars konar ráðgjöf - og hættir til að leita að góðmennsku í öðrum og yfirsjást eða draga úr um leið göllunum. „Hann á vissulega við vandamál að stríða en ég get hjálpað honum“ eða „Hann átti svo erfiða bernsku, allt sem hann þarfnast er einhver sem vill faðma hann“. Þessar konur munu líklega þola mikla misnotkun í þeirri staðföstu trú sinni að þær geti hjálpað; þær eru tilbúnar til að láta skilja sig eftir tilfinningalega, sálarlega og efnahagslega máttvana.2
Næstum allir geðlæknar, félagsráðgjafar, hjúkrunarkonur eða sálfræðingar sem hafa unnið lengi á geðsjúkrahúsum eða í fangelsum þekkja a.m.k. einn starfsmanna sem hefur klúðrað lífi vegna siðblinds sjúklings eða fanga. Eitt slíkt dæmi er þegar sálfræðingur með algerlega flekklausan starfsferil - og átti sér ekkert félagslíf - stakk af með einum siðblindum sjúklingi sínum. Tveimur vikum síðar, eftir að hafa tæmt bankareikninginn hennar og gjörnýtt yfirdráttinn á kreditkortunum hennar, sagði hann henni upp. Starfsferill hennar var ónýtur og draumar hennar um rómantískt samband í molum. Hún sagði að líf sitt hefði verið tómlegt og að hún hefði einfaldlega fallið fyrir áhrifaríku smjaðri hans og loforðum.
Robert D. Hare. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, s. 148-149.* Góðmennska fer í taugarnar á siðblindum og þeir reyna oft að nappa góðar konur.3
* Robert Hare vitnar í grein sem birtst í New Woman tímaritinu [bresku tímariti sem kemur ekki lengur út] og hét „The Con Man’s New Victim“. Í greininni var bent á þann möguleika að konur sem stæðu fjárhagslega á eigin fótum, sem er núorðið afar algengt, gætu orðið siðblindum að bráð þegar þær eru í leit að elskhuga. Siðblindir sitji um svoleiðis konur sem jafnframt eru á einhvern hátt viðkvæmar fyrir, á börum, í heilsurækt og í félagsstarfi. Þótt svindlarinn þekki konurnar auðveldlega úr í mannþrönginni, fellur hann sjálfur inn í hvaða hóp sem er. Benda má á að hann lítur oft vel út, er heillandi, málglaður, sjálfsöruggur, vill ráðskast með fólk og er vafalaust hægt að verða ástfangin af honum.4
*Fyrir utan það að þekkja einkenni siðblindu og gæta sín á mönnum sem konur hitta augliti til auglitis borgar sig að hafa einnig eftirfarandi í huga:
Sumir siðblindir, sérstaklega þeir sem sitja í fangelsi, notfæra sér einkamáladálka, segir Robert Hare.
Fyrir mörgum árum sendi einn fyrrum nemandi minn, sem var mikill Síamskattaelskandi, auglýsingu á einkamáladálk og fjöldi svarbréfa barst frá föngum, þar á meðal frá siðblindum fanga sem hún hafði áður tekið viðtal við sem hluta af rannsókn okkar á siðblindu. Textinn í bréfinu var skrúðmælgi mikil, hann var uppfullur af væmnum lýsingum á sólsetrum, löngum gönguferðum í regninu, ástarsamböndum, fegurð og dulúð síamskatta og svo framvegis. Allt var þetta í sterkri mótsögn við skýrslur um viðkomandi sem sögðu frá ofbeldi gegn fólki af báðum kynjum.
Robert D. Hare. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, s. 147-148.Nú veit ég ekki hvað einkamáladálkar eru mikið notaðir nútildags en í staðinn hafa komið tölvusamskipti. Með Netinu hafa veiðilendur hinna siðblindu margfaldast. Donna Anderson skrifaði bókina Love Fraud-How marriage to a sociopath fulfilled my spiritual plan um hjónaband sitt og siðblinda svindlarans James Montgomery. Þau kynntust í gegnum tölvupóst. Hann rúði hana inn að skinni í þessu hjónabandi. Tíu árum eftir skilnaðinn (árið 2009) komst Donna að því að James var enn að reyna að stofna til kynna við konur á Netinu.5 Það er því full ástæða til að vara konur við siðblindum í samskiptum og kynnum á Facebook, Twitter eða spjallrásum hvers konar.
Siðblindir hafa reyndar oftast ekki áhuga á langtímasamböndum. Sá siðblindi yfirgefur fórnarlambið þegar hann hefur haft af því nægt gagn og gæði, enda er hann spennufíkill og leiðist auðveldlega. Þegar um ástarsamband er að ræða hefur sá siðblindi oftast hafið samband við næsta fórnarlamb áður en hann slítur fyrra sambandi. Stundum er hann með þrjár í takinu; Eina sem hann var að skilja við, eina sem er haldið heitri og þá þriðju sem hann er að byrja að bera víurnar í. Fórnarlambið sem er snögglega yfirgefið hefur oft verið algerlega grunlaust um að fleiri séu í myndinni.6 Og sú yfirgefna fyllist stundum vantrú, reiði, vonleysi, finnst hún einskis virði og hefur á tilfinningunni að sér hafi verið hent á haugana.7
Í þessum vef um siðblindu er fylgt þeirri viðteknu skoðun að meirihluti siðblindra séu karlar, sjá nánar neðanmálsgrein við Fórnarlömb siðblindra: Konur, makar og börn.
1 „Sumir siðblindir eru tækifærissinna árásargjörn rándýr sem er alveg sama hvern þeir misnota. Aðrir eru þolinmóðari og bíða eftir fullkomnu, saklausu fórnarlambi sem villist á veg þeirra. Í báðum tilvikum hefur sá siðblindi fyrst og fremst í huga hvernig megi nýta fórnarlambið til fjár, valda, kynlífs eða áhrifa. Sumir siðblindra hafa gaman af áskorun meðan aðrir einbeita sér að því að leggjast á fólk sem er viðkvæmt fyrir. Siðblindur getur metið veikar hliðar fórnarlambsins og mun nota sér þær til að draga það á tálar.“ „Basic manipulative strategy of a psychopath“ í Psychological manipulation á Wikipedia. Skoðað 23. ágúst 2011.
2 Robert D. Hare. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, s. 149. Peter Tranberg segir um þetta: „Í sambandi við mál Peters Lundin þá fékk ég á tilfinninguna að slatti af kvenkyns kunningjum hans léti stjórnast af Móður-Theresu þráhyggju, því þær vildu bjarga „aumingja manninum“ úr grimmilegu fangelsisumhverfinu og kenna honum að endurgjalda gagnkvæma ást. Í hans augum er þetta markmið merki um veikleika og í grundvallaratriðum ómögulegt að uppfylla.“ Tranberg, Peter. Psykopati - en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett, s. 61. Skoðað 23. ágúst 2011.
3 „Siðblindum sjúklingum hættir til að finna til öfundar í garð þeirra sem eru góðir og sýna árásargirni gegn gæskunni sem þeir skynja til að losna við þessar óþægilegu tilfinningar [öfundsýkina]“ segir í „Psychological Defenses“, Personality Characteristics and Treatment Prognosis á vef American Medical Network (en textinn fjallar um persónuleikaraskanir af ýmsum toga). Skoðað 23. ágúst 2011.
„Öfund er mest áberandi í sjúklingi sem hatar gæskuna sjálfa“, segir J. Reid Meloy í bókinni The Psychopathic Mind - Origins, Dynamics and Treatment, 1988, s. 105. Meloy útskýrir þetta þannig að öfundin sé ekki meðvituð því hún ógni stórmennskuhugmyndum hins siðblinda um eigið ágæti. En hann reynir að eyðileggja góðmennskuna, í ferli sem hefst á meðvituðu hugsuninni: „Ég verð að fá“ og endar á meðvituðu hugsuninni: „Þetta var einskis virði“. Tilvitnanir í Meloy eru teknar úr lokariterð danska sálfræðingsins Peter Tranberg, Psykopati - en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett, s. 55. Skoðað 23. ágúst 2011.4 Hare, Robert D. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, s. 153.
5 Sjá „James Montgomery. Using the Internet to meet and defraud women“ á Lovefreud.com. Skoðað 23. ágúst 2011.
Fundið hefur verið upp sérstakt hugtak yfir siðblinda sem nýta netið til að komast yfir fórnarlömb, annað hvort til að svindla af fólki fé eða komast yfir konur, sem er hugtakið Cyberpath. Sjá t.d. bloggfærsluna „The successful psychopath“ og „Cyberpath“ á Enpsychopedia.org. Skoðað 23. ágúst 2011.6 „Basic manipulative strategy of a psychopath“ í Psychological manipulation á Wikipedia. Skoðað 23. ágúst 2011.
7 Hartoonian, Linda S og Liane J. Leedom. „The aftermath of psychopathy as experienced by romantic partners, family members and other victims“ á Aftermath. Surviving Psychopathy. Skoðað 23. ágúst 2011.
Gert 23. ágúst 2011
Harpa Hreinsdóttir