Siðblinda á vinnustöðum
Siðblindir finnast á flestum vinnustöðum og er afar líklegt að maður rekist einhvern tíma á einn slíkan, annað hvort samverkamann eða stjórnanda. Robert D. Hare telur að þeir sækist einkum eftir vinnu í viðskiptum, stjórnmálum, löggæslu, lögfræðistofum, trúarlegum stofnunum og fjölmiðlum: „Þeir hafa rándýrseðli og bráðina er einkum að finna í ákveðnu umhverfi“. John Clarke bætir við að siðblindir gætu vel þrifist í kennslu.1
Þótt siðblindir kunni að sækjast sérstaklega eftir störfum þar sem þeim gefst kostur á að komast til metorða er þá líka að finna í „rútínu“störfum og störfum sem krefjast menntunar og reynslu. En vafasamt er að þeir uppfylli skilyrði til starfans, frammistaðan byggist á að þjóna undir sjálfan sig, hvorki er hægt að reiða sig á þá né treysta þeim og þeir gætu stundað ólöglegt athæfi.2
Ef marka má fjölda rannsókna og bóka, hefur áhugi manna mjög beinst að siðblindum í viðskiptalífinu, sérstaklega siðblindum stjórnendum. Stór fyrirtæki eru einkar heppileg fyrir siðblindan náunga sem hefur nægilega félagslega færni til að blekkja þorra fólks. Siðblindir sækjast eftir störfum þar sem mikið er umleikis, stöðum, störfum og stofnunum sem bjóða upp á völd, mannaforráð, virðingarstöður og eignir auk persónulegra kynna sem þeir geta grætt á.3
Ég hef hins vegar meiri áhuga á siðblindum samstarfsmönnum og siðblindum innan stofnana sem snerta fjölda fólks, jafnvel þorra fólks. Þessi færsla og þær næstu bera þeim áhuga vitni.Vegna þess að siðblindum er nákvæmlega sama um tilfinningar annarra og þá skortir algerlega samvisku þá kemur hegðun þeirra oft fram í einelti. Því er sérstök undirsíða um einelti þótt auðvitað sé langt í frá að allir gerendur eineltis séu siðblindir.
Hvernig þekkir maður siðblinda samstarfsfélaga?
Robert D. Hare hefur marghamrað á því, í bókum og greinum, að það sé öllum nauðsynlegt að þekkja siðblindu svo menn geti varað sig á siðblindum einstaklingum. Þetta á einnig við um siðblindu á vinnustað. En mönnum er jafnframt tekinn vari fyrir að bera siðblindu beinlínis upp á nokkurn mann. Í sama streng taka flestir sem skrifa um siðblindu, þ.e.a.s. að nauðsynlegt sé að sem flestir þekki einkenni hennar en varað er við að stimpla aðra opinberlega sem siðblinda. Þó sjást þau viðhorf að það sé einfaldlega ljótt að greina vinnufélaga sinn siðblindan og megi því ekki ræða slíkt. Rökin eru aðallega þau að siðblinda sé ekki skilgreind í DSM-IV (Greiningar- og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma, sem Amerísku geðlæknasamtökin gefa út), að um mistúlkun gæti verið að ræða og að í orðinu „siðblindur“ felist ákveðið brennimark sem erfitt sé að losna við.4 Á móti kemur að svo virðist sem leikmenn séu ekkert alltof vel að sér um siðblindu; samkvæmt breskri rannsókn gátu einungis tæp 40% almennings greint siðblindan einstakling af stuttri persónulýsingu og einfaldri atburðarás. (Til samanburðar má nefna að rúm 97% sama hóps greindi rétt þunglyndi og 61% geðklofa eftir sams konar lýsingum).5
Munurinn á siðblindum og venjulegu fólki felst ekki hvað síst í hneigð siðblindra til að notfæra sér fólk á ósanngjarnan og miskunnarlausan máta. Siðblindum er einfaldlega alveg sama þótt orð þeirra og gerðir særi fólk svo lengi sem þeir ná því fram sem þeir vilja og þeir eru mjög leiknir í að fela þessa staðreynd. Af því þeir eru svo flinkir í að stjórna og hagræða hlutunum er ekki furða þótt afar erfitt sé að koma auga á hinn siðblinda persónuleika undir heillandi og aðlaðandi yfirborðinu.
En þetta liggur ekki jafn vel fyrir öllum siðblindum. Sumir hafa ekki nægilega félags- eða samskiptahæfileika til að umgangast aðra hnökralaust. Þess í stað reiða þeir sig á hótanir, þvingun, ógnun og ofbeldi til að drottna yfir öðrum og ná fram því sem þeir ásælast. Fáum dylst að slíkur einstaklingur er árásargjarn og frekar kvikindislegur. Það er borin von að hann heilli fórnarlömbin til undanláts svo hann treystir á einelti í staðinn.6 Siðblindur af þessu taginu er harðbrjósta í garð annarra, leitar markvisst að tækifærum til að taka þátt í deilum og er oftast upp á kant við aðra. Hann lætur sig réttindi og tilfinningar annarra engu skipta og brýtur oft óskráðar reglur um félagslega hegðun. Ef hann nær ekki sínu fram gerist hann hefnigjarn, bruggar öðrum launráð og notar hvert tækifæri til að ná sér niðri á þeim. Oft ræðst hann harkalega á einstaklinga sem eru fremur lítils megnandi.7
Nokkur einkenni siðblindra á vinnustað og víðar
- Þeir sveiflast milli þess að vera afar aðlaðandi, glaðir og kátir og síspjallandi til þess umhverfast í einræðisherra. Svoleiðis gerræði kemur flestu venjulegu fólki til að líta í eigin barm. Flestir vita að það þarf tvo til að úr verði ósætti en sú staðreynd á ekki við þegar við siðblindan er að etja enda er hvort tveggja, töfrarnir og yfirgangurinn, meðvituð hegðun hins siðblinda.
- Þeir auðmýkja og niðurlægja aðra kerfisbundið til að drepa niður sjálfsöryggi þeirra og tekst oft vel upp. Á vinnustað þekkja stjórnendur oft aðeins hina heillandi hlið siðblindingjans meðan samstarfsmenn kynnast gjarna stjórnsemi hans og yfirgangi. Kvarti samstarfsmenn fá þeir gjarna stimpilinn væluskjóður eða klöguskjóður.
- Þeir koma ævinlega af stað deilum og þeir eru sérfræðingar í að leggja aðra í einelti eða standa fyrir flokkadráttum. Þeir skipta gjarna fólki í þá sem þeim líkar við og þá sem þeir hafa andúð á en sú skipting er handahófskennd eftir því hvernig liggur á þeim siðblinda þann daginn.
- Þeir vilja ákveða og ná fram vilja sínum og þeir ljúga og snúa málum til að þetta gangi eftir. Skapsmunir og viðbrögð þeirra eru óútreiknanleg og oft yfirgengileg. Þeir hrópa, hóta og gætu gripið til líkamlegs ofbeldis. Viðbrögðin eru gjarna ósanngjörn og líkjast barnalegri þrjósku. Eftir reiðikast, sem oft virðist út í bláinn, halda þeir sínu striki eins og ekkert hafi í skorist.
- Þeir eru ákaflega viðkvæmir fyrir gagnrýni og viðurkenna aldrei eigin mistök af þeirri einföldu ástæðu að þeir telja sig aldrei gera mistök. Þeir eru snillingar í að kenna öðrum um, jafnvel þótt slíkt hljómi órökrétt eða sé algerlega út í hött. Þeir krefjast þess að aðrir samþykki þá eins og þeir eru, finnst það reyndar sjálfsagt, og telja að aðrir þurfi að laga sig að þeim. Þetta einkenni kemur í veg fyrir hvers konar lækningu á siðblindu því það er alveg sama hversu mörg dæmi eða rök borin eru á borð; aldrei mun siðblindur fást til að fallast á að hann sé ábyrgur eigin gerða. Siðblindur lærir ekki af eigin mistökum því hann telur að hann sé gallalaus og hann spáir sjaldan í hvort hann sé að breyta rétt eða rangt. Þetta viðhorf gegnsýrir oft vinnuumhverfið.
- Þeir eru mjög stjórnsamir og gagnrýnir (en þola sjálfir ekki reglur, skuldbindingar eða stefnumótun) og eru sjaldan ánægðir með annarra verk. Gagnrýni þeirra er oft alls ekki byggð á rökum. Þeir eru tortryggnir í garð annarra og yfirleitt líkar þeim við afar fáa, ef nokkurn. Í fjölskyldum banna þeir gjarna umræðu um hvers lags vandamál. Í atvinnulífinu túlka þeir umræðu um vandamál sem vantraustsyfirlýsingu.
- Þeir lifa lífi sínu án þess að hugsa um óskir eða þarfir annarra, af þeirri einföldu ástæðu að þá skortir hæfileikann til að finna sektarkennd, reiði eða samúð. Þá skortir nefnilega algerlega hæfileikann til samlíðunar með öðrum. Þeim er alveg sama þótt öðrum líði illa. Skyldur og ábyrgð eru þeim merkingarlaus.
- Þeir GETA verið elskulegir og sýnt umhyggju en einungis þegar þeir sjálfir vilja ná einhverju fram. Venjulega er stór munur á því sem hinn siðblindi segir og því sem hann svo gerir. Þá vantar tilfinningadýpt en geta tjáð tilfinningar í innantómum orðum.
- Þeir eru oft órólegir, hvatvísir, pirraðir, reiðir, gera algerlega ósanngjarnar kröfur og grípa jafnvel til ofbeldis. Sumir læra með tímanum að stilla sig um ofbeldi en því er þó aldrei treystandi.
- Þeir upplifa tilfinningar oft sem veikleika. Tengsl þeirra við aðra byggja á gerðum en ekki tilfinningum. Þeir eru oft niðurlægjandi og montnir í samskiptum við aðra, sérstaklega þá sem þeir telja sér óæðri. Siðblindir eru gjarna ofurviðkvæmir fyrir gagnrýni, öfundsjúkir og hallir undir vald. Þess vegna skrúfa þeir upp sjarmann þegar þeir umgangast fólk sem þeir telja sér æðra.
- Þeir ljúga og svíkja og sama hversu margar sannanir þú hefur þá ýmist gera þeir lítið úr þeim, neita þeim eða kenna öðrum um. En þú uppgötvar þetta ekki fyrr en þú kynnist siðblindingjanum nánar. Í upphafi treystirðu honum örugglega, ert heilluð/heillaður af honum og finnst hann mjög skilningsríkur.8
1 Tilvitnun í Robert D. Hare í Gettler, Leon. 2003. „Psychopath in a suit“, The Age.com.au; Clarke, John (viðtal). 2007. „Talking Business with Peter Switzer“, Quantas Inflight Entertainment, s. 27. (Clarke er ástralskur sálfræðingur sem skrifaði bókina Working With Monsters: How to Identify and Protect Yourself from the Workplace Psychopath, útg. 2009, auk fjölda greina um efnið.) McCulloch, Barbara. 2010. „Dealing with Bullying Behaviours in the Workplace: What Works - A Practitioner’s View“. Journal of the International Ombudsman Association, 3. árg., 2. tbl. okt. 2010, s. 39-51. International Ombudsman Association. Einnig má nefna Tunbrå, Lars-Olof. 2003, s. 9. Psykopatiska chefer - lika farliga som charmiga. Liber Ekonomi, Malmö, Svíþjóð. Tunbrå bætir reyndar við að til séu norskar heimildir um að siðblindum takist ekki að klífa mjög hátt upp metorðastigann á vinnustöðum en tekur fram að slíkt hafi ekki verið sannað með rannsóknum.
2 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 97. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York. (Bókin kom fyrst út árið 2006.)
3 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 270.
4 Caponecchia, C., & Wyatt, A. 2007. „The Problem With ‘Workplace Psychopaths’“. Journal of Occupational Health and Safety, 23. árg.,5. tbl., s. 403-406. Ástralía og Nýja-Sjáland.
Fyrstu rökin munu falla um sjálf sig því í næstu útgáfu af DSM (árið 2013) verður siðblinda væntanlega talin sérstakur undirflokkur andfélagslegra persónuleikaraskana.5 Furnham, Adrian, Yasmine Daoud og Viren Swami. 2009. „‘How to spot a psychopath’ Lay theories of psychopathy“. Social Psychiatry and Psychiatric Epidemiology
The International Journal for Research in Social and Genetic Epidemiology and Mental Health Services, 44. árg. 6. tbl. s. 464-472, júní 2009.Höfundar nefna til skýringar að líklega sé annars vegar um að ræða misskilning eða mistúlkun almennings á geðröskuninni siðblindu og hins vegar skort á upplýsingum um hana. Misskilningurinn stafi fyrst og fremst af því hvernig fjölmiðlar hafi slegið upp siðblindum glæpamönnum og hvernig þeir eru túlkaðir í kvikmyndum. Almenningur hafi því fengið ranga mynd af fyrirbærinu. Niðurstöður rannsóknarinnar hvetji til þess að mennta fólk betur í einkennum siðblindu.
6 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 39.
7 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 189.
8 Anni Løndal de Lichtenberg (danskur blaðamaður). Tekið af „Psykopati“ á Psykologihuset.dk, í janúarbyrjun 2011. Það vefsetur er horfið septemberbyrjun 2011.
Greinar á Vefnum voru skoðaðar 5. september 2011 nema annað sé tekið fram.
Gert 5. september 2011
Harpa Hreinsdóttir