Til baka á forsíðu
Að þekkja úr siðblinda eftir líkamstjáningu, rödd, raddbeitingu o.fl.
Hér á eftir fer þýðing á hluta færslunnar „How Body Language, Speech, and Voice Patterns Can Be Used to Spot the Possible Sociopathic “Casey Anthony’s” of the World“ (Hvernig má þekkja heimsins eintök af hugsanlega siðblindri Casey Anthony1 með því að gaumgæfa líkamstjáningu, rödd og raddbeitingu)á Dr. Lillian Glass Body Language Blog.2,3 Færslan er dagsett 18. 12. 2009 og var sótt þann 7. janúar 2011.
Ath. Lillian Glass talar alls staðar um siðblinda í fleirtölu en í þýðingunni hef ég víða breytt í eintölu af því slíkt hljómar betur á íslensku. Einnig hef ég örlítið stytt textann á stöku stað.
Myndin er af fjöldamorðingjanum dansk-ameríska Peter Lundin. Hann greindist með 39 stig (af 40 mögulegum) á siðblindukvarða Roberts Hare. Nánari upplýsingar um Peter Lundin má t.d. sjá á Wikipediu.
ORÐFÆRI SIÐBLINDRA
Siðblindir færa sér aðra í nyt með aðdráttarafli, svikum, ofbeldi eða öðrum þeim aðferðum sem gagnast þeim til að ná fram ætlun sinni. Þeir reyna að lokka þig með yfirgengilegum gullhömrum og hrífandi talsmáta. Til að nálgast þig virðast þeir hlynntir flestu sem þú segir. Í upphafi sýna þeir aldrei að þeir séu á öðru máli eða ósammála skoðunum þínum. Þess vegna virðast þeir svo frábærir við fyrstu kynni því þeir segja akkúrat það sem þú vilt heyra. Hinn siðblindi spyr þig í þaula um þig sjálfa(n) vegna þess að hann vill reikna út sem fyrst hvað þú vilt heyra og á hvaða takka eigi að ýta. Hann vill komast að því hvað gerir þig hamingjusama(n), reiða(n), glaða(n) eða hrygga(n) svo hann geti spilað á tilfinningar þínar - tilfinningar sem hann skortir sjálfan.4
STÓRMENNSKUÓRAR OG ÁSAKANIR
Stórmennskuhugmyndir siðblindra birtast í lýsingum þeirra á sjálfum sér. En þegar þeir tala um aðra er venjan að ásaka þá og segja þér hversu hræðilega þeir komu fram við þá. Siðblindir taka enga ábyrgð og nota aldrei orðalagið „Mér þykir þetta leitt“ eða „Ég biðst afsökunar“. Vandinn liggur ævinlega hjá einhverjum öðrum en þeim.
„Ég“ „Ég“ „Ég“ „Ég“
Uppáhaldsorð þess siðblinda er „Ég“ því hann hefur yfirdrifið sjálfsálit, telur að heimurinn snúist um sig og hann sé nafli alheimsins. Hann hrósar sjálfum sér heilmikið og virðist fullur hroka.
Hann lýgur að þér til að ná fram sínu og ber enga virðingu fyrir tilfinningum eða rétti annarra. Loforð hafa enga merkingu fyrir hann nema þau þjóni einhverjum tilgangi fyrir hann og þarfir hans.
„GENGIÐ Á EGGJASKURN“ / TIPLAÐ Á TÁNUM KRINGUM ÞÁ
Siðblindir eru mjög viðkvæmir fyrir skensi, svo ef þú segir eitthvað sem siðblindur tekur til sín mun hann bregðast við með fjandsamlegum og niðurlægjandi athugasemdum.5
ALDREI HUGSAÐ TIL ENDA - FULLT AF HUGARÓRUM
Af því að siðblindir eru venjulega hvatvísir og lifa í núinu hafa þeir litla sinnu á að hugsa málin til enda. Oft heyrir maður alls konar hugaróra og þeir skipta sífellt um umræðuefni í samræðum eða vaða úr einu í annað af því þeir eiga erfitt með að einbeita sér að einhverju ákveðnu.6
KALDLYNDI
Þótt siðblindur leggi sig fram við að vera heillandi þá birtist tilfinningakuldi hans í særandi og jafnvel meinfýsnum athugasemdum. Manni finnst þær í fyrstu undarlegar og hrollvekjandi og rennur jafnvel kalt vatn milli skinns og hörunds við að heyra þetta. Ekki líta fram hjá þessum áhrifum. Randkerfi heilans („limbic system“) varar þig við að eitthvað sé mjög bogið við þetta. Þótt siðblindir þykist þola dýr er þeim innst inni illa við þau, enda sýndu margir þeirra dýrum grimmd í æsku. Þeir gætu því átt til að koma með illkvittnar athugasemdir um gæludýrið þitt. Öll meinfýsin ummæli um dýr eða börn eru risastór hættumerki.
Í MÓTSÖGN VIÐ SJÁLFA SIG
Skýr vísbending um siðblindu er þegar menn komast í mótsögn við sjálfa sig, liggur við í sömu setningunni. Í yfirheyrslunni yfir Casey Anthony var hún spurð hvort hún hefði símanúmer Jose Baez og neitaði því. Í næstu yfirheyrslu sagðist hún ótilkvödd hafa farsímanúmer Baez. Svonalagað er feikilegt hættumerki! Rannsakendur eru nú að uppgötva að slíkar mótsagnir, sem oft birtast í orðræðu siðblindra, eru tengdar sérstakri heilastarfsemi þeirra.7
RADDBEITING
HOLUR TÓNN
Tóninn í rödd siðblindra er venjulega holur eða hljómlaus. Þeir virðast ekki vera almennilega „í sambandi“ enda finna þeir hvorki til sektar né eftirsjár eftir neinu sem þeir hafa gert.
VÆLUTÓNN
En öðru hvoru heyrist vælutónn eða sífrandi tónn þegar siðblindir kenna öðrum um. Allt er öllum öðrum að kenna og þetta heyrist í raddbeitingu. Ef þú ert ósammála siðblindum eða viðrar annað sjónarmið má einnig heyra þennan vælutón.
TILBREYTINGALAUS SÖNGLANDI
Siðblinda skortir samhygð og þess vegna er ekki hægt að greina tilfinningar í raddblænum. Röddin virkar eintóna og tilbrigðalaus.
BREYTTUR RADDBLÆR ÞEGAR REYNT ER AÐ RÁÐSKAST MEÐ ÞIG
En þegar sá siðblindi snýr sér að því að reyna að stjórna þér má merkja breytingu á venjulega tilbrigðalausa raddsviðinu. Hann verður háværari og talar hraðar, til að ná athygli þinni.
LÍKAMSTJÁNING
STÍFUR LIMABURÐUR
Oft má taka eftir hve óliðlegt látbragð þeirra er. Hreyfingarnar eru stirðbusalegar. Kannski finnst þér að þeir beri sig vel en í rauninni er það vegna þess hve þeir eru stífir í fasi. Hreyfingar ráðast af tilfinningum og af því að stórt tóm er í tilfinningalífi siðblindra geta þeir ekki tjáð litróf tilfinninganna með líkamanum.
Það er vegna þessa sem svo margir hinna þekktu siðblindra [líkast til átt við fræga glæpamenn] sýna vélræna stirfni í hreyfingum eða hreyfa sig bara alls ekki. Raunar halda þeir oft utan um sjálfa sig sem er brella til að þurfa ekki að tjá sig, úr því líkamstjáning þeirra er svo vanburða.
HRISTA HÖFUÐIÐ ÞEGAR ÞEIR MEINA JÁ OG ÖFUGT
Það er ekki óalgengt að siðblindur tali um eitthvað jákvætt en hristi um leið höfuðið eins og hann sé að tákna „nei“ eða hneigi höfuðið í jákvæðri merkingu um leið og hann baktalar einhvern.
ÞENJA ÚT BRJÓSTKASSANN OG VAGGA
Vegna þess hve sjálfsálit siðblindra er útbelgt sjást þeir stundum þenja út brjóstkassann og göngulagið verður vaggandi til að sýna hve æðri öllu þeir eru.
ÓHÓFLEGT HANDAPAT
Þegar siðblindur vill leggja áherslu á mál sitt gerir hann það með handapati úr öllu hófi svo hendur og armsveiflur verða alltof stórar. Stundum veltir maður því fyrir sér af hverju hann baðar svona út öllum öngum. En þessar óhóflegu handahreyfingar eru til að ná athygli manns svo þeir geti stjórnað manni.
ANDLITSTJÁNING
AUGNSAMBAND
Siðblindir ljúga auðveldlega og eru svo flinkir að ráðskast með mann að það borgar sig að gá hvort þeir einblína á mann. Ef siðblindur horfist stöðugt í augu við þig og hreyfir sig ekki er það stórt hættumerki um að hann sé einmitt að ljúga að þér eða reyna að ná valdi yfir þér.
STAÐFAST AUGNARÁÐ
Margir eiga erfitt með að halda augnsambandi meðan þeir ljúga en hinn siðblindi horfist hins vegar stöðugt í augu við þig þegar hann vill hafa eitthvað af þér eða vill ráða yfir þér. Það er enginn vafi á að akkúrat þetta notaði Charles Manson til að sannfæra fylgjendur sína og láta þá fremja hroðaleg ódæði. Það má sjá þetta starandi og sefjandi augnaráð hans á myndskeiðum á YouTube. Ef hann vildi koma máli sínu til skila til viðmælenda horfði hann beint í augu þeirra, annars leit hann stöðugt undan. [Myndin til hægri er af Manson.]
AUGNSAMBAND ROFIÐ UM LEIÐ OG ÞÚ KEMUR EKKI AÐ GAGNI LENGUR
Þegar hinn siðblindi telur sig ekki hafa neitt á þér að græða lengur á hann erfitt með að horfa á þig vegna þess að hann tengist þér ekki sem manneskju. Hann getur bara tengst þér eins og dauðum hlut eða verið upptekinn af því hvað þú getur gert honum til góða.
Enginn gat gert neitt fyrir Ted Bundy8 þegar síðasta viðtalið við hann var tekið, rétt áður en hann var líflátinn. Þess vegna horfðist hann varla í augu við spyrjandann, eins og sjá má á YouTube. Sama á við um fjárglæframanninn mikla, Bernie Madoff9. Hann sat fyrir svörum í hringborðsumræðum og horfðist ekki augu við nokkurn mann. Af hverju? Vegna þess að hann þarfnaðist þeirra ekki. Þeir voru honum einskis virði. Hann gat ekki ráðskast með hina svo hann nennti ekki einu sinni að reyna.
RÁÐSKAST MEÐ AUGNARÁÐINU
Siðblindir nota skerta virka skilyrðingu sem neyðir þig til að hlusta eða veita honum að minnsta kosti athygli. Þetta gerir sá siðblindi með því að stara á þig og rjúfa svo skyndilega augnsambandið og láta þig bíða eftir að hann snúi athyglinni aftur að þér. Hann skynjar líka eftirvæntingu þína. Þannig getur hann stjórnað þér.
SJÁLFSÁNÆGJUGRÍMA KEMUR Í STAÐ ANDLITSTJÁNINGAR
Siðblinda skortir fínhreyfingar í andlitinu og svipbrigði sem gefa tilfinningar til kynna. Oftast kemur þess í stað einhvers konar stirðnuð andlitsgríma sem lítur samt í rauninni frekar huggulega út því þeir hafa æft upp vinalegan svip til að dylja allt hið óþægilega sem er á kreiki í hugarfylgsnum þeirra.10
GETA EKKI SÝNT LITRÓF TILFINNINGA MEÐ SVIPBRIGÐUM
Vegna þess hve siðblindir eru kaldlyndir er þeim ómögulegt að tjá alls konar tilfinningar með svipbrigðum. Kannski var það þess vegna sem raðmorðinginn John Wayne Grayce, sem myrti unga drengi, lokkaði fórnarlömbin til sín með því að mála sig eins og hamingjusaman sirkústrúð í framan.
Skortur á svipbrigðum sást vel í framkomu Bernards Madoff, allt til þess að dómurinn féll. Margir höfðu það á orði að hann bæri sífellt glott á vörum. Þetta er dæmi um að hinn siðblindi reynir að miðla ánægju en nær því ekki heldur endar glottandi. Ted Bundy var eins á svipinn og sagt var hið sama um hann. [Myndin til vinstri er af Ted Bundy.] Scott Peterson, sem myrti eiginkonu sína og ófætt barn, glotti alveg eins undir öllum réttarhöldunum og setti kviðdómendur úr jafnvægi. Hann bar enn grímu-glottið þegar verðirnir fylgdu honum inn í San Quentin fangelsið.
Andlitssvipur hans minnti sem sagt á grímu og var gersneytt svipbrigðum og tilfinningum. Svona andlitstjáning er skýrt merki þess að eitthvað er ekki eins og á að vera. Fólk sýnir svipbrigði svo lengi sem það hefur ekki verið sprautað með bótox. En í tilviki hins siðblinda skortir tilfinningarnar til að tjá sem skýrir af hverju hann sýnir svo fá svipbrigði. Þess vegna var líka grátur Casey í réttarsal lítt sannfærandi.
SIÐBLINDIR GRÁTA ÞURRUM TÁRUM
Stundum reyna siðblindir að þykjast hafa tilfinningar og gráta til að öðlast samúð. En maður sér sjaldan tár. Af því þeir eru tilfinningalausir, sem felur í sér að þeir skynja enga hryggð, þá reyna þeir oft að leika sig grátandi með því að þurrka sér um augun. En hreinn og beinn skortur á tárum kemur auðvitað upp um þá! Þannig var Casey í lokaréttarhöldunum.
AÐ LOKUM
Ef þú tekur eftir einhverjum af þeim vísbendingum sem taldar hafa verið upp skaltu alls ekki láta þær þér í léttu rúmi liggja! Slíkt gæti eyðilagt líf þitt eða jafnvel kostað þig lífið. Ef eðlishvötin hvíslar að þú sért í félagsskap siðblinds náunga eða ef þú finnur fyrir óróleika innst inni þá skaltu reikna með að eðlisávísunin sé rétt, fara eftir henni og HLAUPA!!!!
1 Grein á Wikipediu fjallar um Casey Anthony og dóttur hennar Caylee. Casey hefur verið marghandtekin fyrir ýmis afbrot og sat þar til fyrir skemmstu í fangelsi ákærð um að hafa myrt tæplega 3 ára dóttur sína. Titill greinarinnar virkar asnalegur á Íslending en hefur væntanlega átt að trekkja ameríska lesendur á sínum tíma, þegar mál Casey Anthony voru í hámæli. (Þau komust reyndar aftur í hámæli þegar Casey Anthony var sýknuð af morðinu í byrjun júlí 2011 en dæmd sek um falskan vitnisburð. Lesa má um réttarhöldin og dóminn á þessari Wikipedia-síðu sem krækt er í.)
2 Í inngangi kemur fram að höfundurinn, Lillian Glass, lítur á hugtakið „sociopath“ sem nánast samheiti við „psychopath“. Í sama streng tekur Robert D. Hare sem telur að þeir sem vilja nota orðið „sociopath“ séu uppteknir af þeirri hugmynd að manngerðin sé mótuð af félagslegum aðstæðum. Sjálfur vill hann nota orðið „psychopath“ því hann telur að sálfræðilegir, líffræðilegir og arfgengir þættir hafi allir sitt að segja til að skapa siðblindan einstakling. Sjá Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, 1999, s. 23-24.
3 Af því höfundurinn lítur nokkuð glansmyndalega út, enda sjónvarpsstjarna vestra, er rétt að benda á síðu um menntun hennar og bakgrunn. Af þeim upplýsingum að dæma má ætla að hún kunni nokkuð góð skil á umfjöllunarefninu í þessari grein.
4 Robert D. Hare gerir kaldlyndi siðblindra nokkur skil í undirkaflanum „Hollow Words“ í Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, 1999, 8. kafla, s. 128 - 129. Hann vitnar í lýsingar annarra á þessu siðblindueinkenni, t.d. „Hann kann textann en ekki lagið.“ [J. H. Jones og H. C. Quay, 1962]eða „Hugmyndir um gagnkvæman skilning og gagnkvæm samskipti eru ofar tilfinningalegri skynjun hins siðblinda; hann þekkir einungis bókstaflega merkingu svoleiðis orða.“ [V. Grant, 1977] Sjálfur reynir Hare að útskýra þetta svona: „Sá siðblindi er að sumu leyti eins og litblindur sem sér veröldina í gráum tónum en hefur lært hvernig á að lifa í heimi litanna. Litblindur hefur lært að ljósið fyrir „stopp“ er efst á götuvitanum. Þegar litblindur maður segir þér að hann hafi stoppað á rauðu ljósi meinar hann í rauninni að hann hafi stoppað á efsta ljósinu. Hann kann að eiga erfitt með að ræða um liti á hinu og þessu en hefur væntanlega lært að bæta sér þetta upp og í sumum tilvikum gera jafnvel nánir vinir hans sér ekki grein fyrir að hann skynjar ekki liti. Alveg eins og þann litblinda vantar siðblindan mikilvægan reynsluþátt - í síðarnefnda tilvikinu upplifun tilfinninga - en sá siðblindi getur vel hafa lært orðin sem aðrir nota til að lýsa eða tjá tilfinningar sem hann sjálfur skilur í rauninni ekki. Eins og Cleckley orðaði það: „Hann getur lært að nota venjuleg orð ... [og] mun einnig læra að herma rétt eftir því sem tjáir tilfinningar ... en tilfinningarnar sjálfar skortir“. [Cleckley, 1976, s. 230].“
5 Langt er síðan menn tóku eftir því að siðblindir skynja ekki almennilega tilfinningaleg og óhlutlæg blæbrigði tungumálsins. Markmið rannsóknar einnar var að meta hæfileika siðblindra til að skilja myndhverfingar [nokkurs konar líkingar], jafnt bókstaflega sem tilfinningatengda merkingu þeirra.
Í ljós kom að þeir skildu ágætlega bókstaflega merkingu slíkra orðasambanda. Aftur á móti gerðu þeir sér slæma grein fyrir því hvort líking væri jákvæð eða neikvæð. Má nefna dæmi á borð við „Hafið er móðir [vagga] lífsins“, sem einn siðblindur taldi mjög neikvæða líkingu meðan annar taldi „Maðurinn er ormur sem lifir á líki jarðarinnar“ vera mjög jákvæða. Enn annar útskýrði alveg rétt myndhverfinguna „Svefninn er græðir sem læknar sár hversdagsins“ [„Svefninn er allra meina bót“] og sagði þýða „Svefn hjálpar þér að lækna líkamann“ en greindi síðan þessa myndhverfingu sem neikvæða. Þessar niðurstöður styðja enn frekar tilgátur um að siðblindir eigi erfitt með að greina tilfinningabundna þætti tungumáls.
Það kaldhæðnislega við þessar niðurstöður er að siðblindir nota sjálfir oft myndhverfingar og málskrúð til að ganga í augun á öðrum, dylja ætlan sína og ná stjórn yfir öðrum. Einn í rannsókninni lýsti hinu fullkomna lífi með eiginkonu sinni þannig: „Með ást hennar varð ég borgari í hinu himneska keisaradæmi“. Þrátt fyrir málskrúðið hafði hann ekki búið með konu sinni í tvö ár og var tekinn fastur fyrir að kveikja í húsinu hennar, birtast á vinnustað hennar og skjóta tvo vinnufélaga hennar. Svona ósamræmi milli orða og gerða er auðvitað lykilþáttur í persónleika siðblindra.
Sjá Herve HF, Hayes P, Hare RD. „Psychopathy and sensitivity to the emotional polarity of metaphorical statements“. Personality and Individual Differences. 2003, 35. árg. 7. tbl., s. 1497–1507. The Official Journal of the International Society for the Study of Individual Differences (ISSID) Nálgast má greinina á netinu hér.
Mér finnst þessar niðurstöður benda til þess að siðblindir eigi erfitt með að skilja kímni, tvíræðni og skáldskap sem byggir á myndhverfingum. Það er því eðlileg ályktun að þeir þoli illa stríðni og að upplifun þeirra af skáldskap sem byggir á miklu myndmáli sé heldur fátækleg.
6 Robert D. Hare nefnir dæmi um þetta, samtal þar sem kvenkyns rannsakandi bað siðblindan fanga að lýsa einhverjum tilfinningaþrungnu atviki sem hann hefði upplifað og fanginn svaraði:
„Ja, þetta er erfið spurning. Svo margt að hugsa um. Ég man að einu sinni - ö - var ég að fara yfir á rauðu ljósi og það var engin umferð, skilurðu? Svo hvað er málið? Þessi lögga byrjaði að bögga mig að ástæðulausu og gerði mig alveg brjálaðan. Ég fór í rauninni ekkert yfir á rauðu. Sennilega var það á gulu ... svo hvað var - ö - málið? Vandamálið með löggur eru að þeir eru - ö - næstum alltaf á einhverju valdatrippi. Þeir eru matsjó, skilurðu? Ég er ekkert fyrir matsjó. Ég er meira svona elskhugi. Hvað finnst þér? Ég meina, ef ég mundi ekki vera í fangelsi ... segjum svo að við hittumst í partíi - ö - og ég mundi bjóða þér út, og, ég þori að veðja að þú mundir segja já, ekki satt?“ (Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us. 1999, s. 138)7 Hare nefnir nokkur dæmi um slíkar mótsagnir, þar á meðal þetta: „Þegar Ted Bundy var spurður hvaða áhrif kókaín hefði á hann þá svaraði hann: „Kókaín? Ég hef aldrei notað það ... ég prófaði aldrei kókaín. Ég held ég hafi kannski prófað það einu sinni og fékk ekkert út úr því. Sniffaði bara pínulítið. Og ég bara vil ekkert með það hafa. Það er of dýrt. Og ég hugsa að ef ég væri útigangsmaður og ætti nóg af því þá mundi ég kannski brúka það. En ég er fyrst og fremst marijúana-gaur. Það sem ég geri er ... ég elska að fá mér jónu. Og valíum. Og auðvitað alkóhól.“ (Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us. 1999, s. 126).
Síðan reynir Hare að útskýra fyrirbærið þannig: Í flestu fólki skipta heilahvelin tvö með sér verkum. Í vinstra heilahveli fer fram úrvinnsla upplýsinga, þ.e. greining og röðun, og einnig sér vinstra heilahvel um málskilning og málnotkun. Hægra heilahvelið vinnur úr upplýsingum sem heild og skiptir miklu máli í rúmskynjun, myndum, tilfinningaupplifun og tónlist. Það er náttúrulega hagkvæmt að heilahvelin sjái hvort um sitt. Ef bæði vasast í því sama hægir það á úrvinnslunni. Rekja má sumar gerðir lesblindu og stams til einmitt þessa. Málsstöðvar má finna í báðum heilahvelum. Keppni milli heilahvelanna tveggja veldur miklu um ýmsa erfiðleika í málskilningi og málnotkun. Nýjar rannsóknir benda til að einmitt slík tvíhliða málvinnsla heilans sé eitt einkenna siðblindu. Af þessu má draga þá ályktun að það hve siðblindum hættir til að vera tvísaga sé af því að „stjórnin er ekki á hreinu“, þ.e.a.s. að bæði heilahvelin reyna að stýra málvinnslunni, sem veldur því að orðfæri verður illa samþætt og lætur illa að stjórn. (Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, 1999, s. 127-128). Sjá nánar um þessa kenningu: Christopher J. Patrick. 2007. Handbook of Psychopathy, s. 340-341. Guilford Press, New York. Skoðað á Google bækur þann 7. janúar 2011.
8 Ted Bundy er frægasti raðmorðingi Bandaríkjanna. Hann var líflátinn árið 1989. Sjá nánar í greinarstubbi á íslensku Wikipediu eða langa umfjöllun á ensku Wikipediu.
9 Árið 2009 var Bandaríkjamaðurinn Bernard Madoff dæmdur í 150 ára fangelsi fyrir yfirgengilegt fjármálamisferli og fjársvik. Sjá nánar í grein um hann á Wikipediu.
10 Það er varla tilviljun að hið fræga grundvallarrit Hervey Cleckley um siðblindu heitir einmitt The Mask of Sanity.
Uppfært 23. ágúst 2011
Harpa Hreinsdóttir