Að bera kennsl á siðblinda og lágmarka skaðann af kynnum við þá, skv. Hare
Hér fer á eftir listi Roberts D. Hare yfir hvernig sýna skal varúð og þekkja siðblinda einstaklinga, jafnframt því sem ráðlagt er hvernig lágmarka megi skaðann af kynnum við slíka. Listinn er undirgreinin „A Survival Guide“, s. 4-5 í „This Charming Psychopath. How to spot social predators before they attack“ á vefútgáfu Psychology Today. (Greinin birtist 1. janúar 1994 og vefútgáfan var síðast endurskoðuð 1. júní 2010.) Raunar er þetta útdráttur úr 13. kafla, „A Survival Guide“, í Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us eftir Robert Hare, fyrst útg. 1993.
Leiðarvísir til að komast af
Þótt enginn sé algerlega ónæmur fyrir vélabrögðum hins siðblinda þá eru nokkur atriði sem hægt er að hafa í huga til að lágmarka skaðann sem hann gæti valdið þér.
* Gerðu þér grein fyrir við hvað við er að etja. Þetta hljómar auðvelt en getur í rauninni verið mjög erfitt. Allar heimsins fræðibækur gera þig ekki ónæma(n) fyrir eyðileggjandi áhrifum siðblindra. Allir, þar á meðal sérfræðingar, geta látið hrífast, blekkjast og staðið ráðvilltir eftir. Flinkur siðblindingi getur leikið konsert á hjartastrengi hvers sem er.
*Ekki falla fyrir sýndarmennsku eða leikmunum (props). Það er ekki auðvelt að komast fram hjá heillandi brosi, aðlaðandi líkamstjáningu og hröðu tali hins dæmigerða siðblindingja því allt þetta blindar okkur sýn á raunverulega ætlan hans. Mörgum finnst erfitt að höndla hið ákafa „rándýrsaugnaráð“ siðblindra. En hið starandi augnaráð er fremur forleikur að sjálfsfullnægju og leikur að valdi en venjulegur áhugi eða samúðarfull umhyggja fyrir viðmælandanum.1
Í kaflanum í Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, s. 208, bætir Hare við: „Sumum finnst kalt augnaráð hins siðblinda vera einkar óþægilegt og líður eins og bráð andspænis rándýri. Aðrir verða gagnteknir, jafnvel agndofa, komast á vald hans og skilja lítt eigin viðbrögð. Hver sem sálfræðileg merking augnaráðsins kann að vera þá er á hreinu að sterkt augnsamband er mikilvægur þáttur í hæfileikum sumra siðblindra til að ráðskast með og drottna yfir öðrum.“ Ráðið er að loka augunum eða snúa sér undan og einbeita sér að því hvað viðkomandi er í rauninni að segja.
* Ekki bera blöðkur fyrir báðum augum. Byrjaðu hvert samband með augun opin. Eins og gildir með okkur öll þá byrja flestir siðblindir sjónhverfingamenn og flagarar á að fela sínar myrku hliðar og skarta sínu besta. En svo myndast sprungur í grímunni sem þeir bera. Samt er erfitt að sleppa úr blekkingavef þeirra án þess að skaðast fjárhagslega og tilfinningalega.2
* Vertu á varðbergi á hættuslóðum. Sumar aðstæður eru sem klæðskerasniðnar fyrir siðblinda: Barir fyrir einhleypa, lystiskipaferðir, flugvellir í útlöndum o.s.fr. Á svona stöðum er fórnarlambið oft einmana og í leit að skemmtun, spennu eða félagsskap. Venjulega er einhver til í að veita slíkt en endurgjaldið sem krafist er getur komið á óvart.
* Þekktu sjálfa(n) þig. Siðblindir eru flinkir í að finna veikar hliðar og notfæra sér þær samviskulaust. Besta vörnin gegn þessu er að þekkja sína eigin veikleika og vera sérstaklega á verði gegn þeim sem einbeitir sér að akkúrat þeim.
Lágmarkaðu skaðann
Því miður þá kemur jafnvel stakasta varúð ekki endilega í veg fyrir að þú lendir í klónum á viljasterkum siðblindingja. Það eina sem þú getur gert í þeirri stöðu er að reyna að lágmarka skaðann. Það er ekki auðvelt en hér eru nokkrar leiðir sem gætu hjálpað:
* Leitaðu þér faglegrar hjálpar. Vertu viss um að fagmaðurinn sem þú leitar til hafi þekkingu á fræðum um siðblindu og hafi reynslu í að fást við siðblinda.
* Ekki ásaka sjálfa(n) þig. Það skiptir ekki máli hvaða ástæður urðu til þess að þú tengdist siðblindum einstaklingi heldur er mikilvægt að þú axlir ekki ábyrgð á viðmóti hans og hegðun. Siðblindir leika sama leikinn eftir sömu reglum við alla - sínum eigin reglum.
* Gerðu þér grein fyrir hvert er fórnarlambið. Siðblindir reyna oft að láta líta svo út að þeir þjáist og fórnarlambið sé syndaselurinn sem valdi þjáningunni. Ekki eyða samúð þinni á þá.
* Áttaðu þig á því að þú ert ekki ein(n). Flestir siðblindir skilja eftir sig slóð fórnarlamba. Sá siðblindi sem særði þig hefur örugglega valdið fleirum sorg.
* Farðu varlega í valdatafl. Hafðu í huga að siðblindir hafa sterka þörf fyrir sálarlegt og líkamlegt vald yfir öðrum. Það þýðir ekki að þú eigir ekki að gæta réttar þíns en það er sennilega erfitt að gera það án þess að eiga á hættu alvarlegt tilfinningastríð eða líkamsskaða.
* Settu skýr mörk. Þótt valdatafl við siðblindingja sé varasamt þá gætirðu sett bæði þér og þeim siðblinda mörk til að gera líf þitt auðveldara og stíga fyrstu skrefin í vegferð þinni frá fórnarlambi til sjálfstæðrar manneskju.
* Ekki búast við dramatískum breytingum. Að mestu leyti er persónuleiki hins siðblinda sem meitlaður í stein.
* Lágmarkaðu skaðann. Undir lokin finnst flestum fórnarlamba siðblindra þau sjálf vera hálfrugluð og vonlaus og eru sannfærð um að vandamálin séu aðallega þeim að kenna. En því meir sem þú gefur eftir því meir verðurðu (mis)notuð vegna óseðjandi eftirsóknar hins siðblinda í vald og stjórn yfir öðrum.
* Notaðu sjálfshjálparhópa. Þegar þú hefur fengið grunsemdir þínar um siðblindu staðfestar þá veistu að framundan er löng og torsótt leið. Vertu viss um að þú fáir allan þann tilfinningalega stuðning sem þú getur nýtt þér.
1 „Orðlaus samskipti siðblindra hafa verið rannsökuð. Ýmis hegðun felst í ósögðum skilaboðum, t.d. svipbrigði, bendingar og raddbeiting. Rime, Bouvy og Roillon (1978) uppgötvuðu að siðblindir hafa tilhneigingu til að ota sér inn á persónulegt svið spyrjanda með því að halla sér fram og með því að halda löngu augnsambandi. Af því augnsamband er venjulega talið andstætt við óheiðarleika getur verið að þessi samskiptanálgun sé hluti af verkfærasafni siðblindra, hannað til að sannfæra aðra um að þeim sé treystandi.“ Louth, Shirley M;, Williamson, Sherrie; Alpert, Murray; Pouget, Enirique R; Hare, Robert D. „Acoustic Distinctions in the Speech of Male Psychopaths“ í Journal of Psycholinguistic Reseach, 27. árg., 3. tbl., 1998. Skoðað á Vefnum í janúar 2011.
Robert D. Hare vitnar í konu sem siðblindur hafði svindlað á: „Ég fylgdist ekki með öllu sem hann sagði en hann sagði allt mjög fallega. Hann hefur svo yndislegt bros.“ Without Conscience. The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, s. 146.
2 Formáli bókarinnar Without Conscience. The Disturbing World of the Psychopaths Among Us eftir Robert D. Hare (fyrst útg. 1993) hefst þannig: „Siðblindir eru rándýr í samfélagi manna, sem heilla, ráðskast með og ryðja sér vægðarlaust braut gegnum lífið og skilja eftir sig slóð af brostnum hjörtum, væntingum og tómum veskjum. Þeir svífast einskis í eigin þágu, enda samviskulausir og ófærir um að setja sig í annarra spor. Reglur mannlegra samskipta eru fótum troðnar án minnstu sektarkenndar eða eftirsjár.“ (S. xi, hér er einnig stuðst við þýðingu Nönnu Briem í „Um siðblindu“, Geðvernd, 38. tbl. 2009, hér krækt í pdf-útgáfu í Hirslu LSH.)
Gert 22. ágúst 2011
Harpa Hreinsdóttir