Til baka á forsíðu
 
Allt sem ekki var fjallað um og enn og aftur varað við siðblindum
 

Það væri endalaust hægt að halda áfram að skrifa um þetta áhugaverða efni en hér verður látið staðar numið og ég sný mér að öðru. Ég hef orðið margs vísari í þessum skrifum en ítreka að ég er einungis áhugamaður um siðblindu, hvorki menntuð í læknisfræði né sálfræði og ættu lesendur að hafa það í huga.
 

Eins og margoft hefur komið fram á öðrum síðum á þessum vef beinist áhugi manna hérlendis einna mest að siðblindum í viðskiptalífinu og áhrifum þeirra þar. Að mínu mati er það frekar léttvæg hlið siðblindu (en auðvitað markast mikilvægið af því hvaða sýn menn hafa á fé og hversu miklu máli menn telja að auður, eignir og fé skipti  í lífinu). Það hefði svo sem mátt skrifa meira um þetta, gera t.d. grein fyrir hinni dökku þríund (The Dark Triad) sem er notað um það þegar machiavellianismi, sjálfsdýrkun (narcissism) og siðblinda (psychopathy) koma saman í  persónuleika einhvers. Sjálfsdýrkun einkennist af sjálfumgleði, hroka og athyglisýki, machiavellíönsk viðhorf gera það að verkum að menn vilja öðlast vald yfir öðrum og setja eiginhagsmuni í forgang. Versti þátturinn í þessari blöndu er siðblinda eins og ætti að vera ljóst hafi menn lesið hinar síðurnar um hana. (Lesa má stuttan texta um hina dökku þríund á ensku Wikipediu og þar er krækt í greinar um efnið.)
 

Annað sem sumir virðast hafa áhuga á er siðblinda í stjórnmálum. Um það hef ég ekkert skrifað enda fremur áhugalítil um efnið. Ég reikna með að um margt gildi hið sama um siðblinda í pólitík og siðblinda í viðskiptum. Illskufræði (Ponerology) fjalla um það ástand sem verður þegar siðblindir ná völdum yfir samfélagseiningu, ríki eða þjóð og gegnsýra þetta með skoðunum sínum. (Ég bendi á knappa og skýra umfjöllun á Wikipediu, um illskufræði, þar sem vísað er í frekara efni.)
 

Mér finnst lang mikilvægast að gera sér grein fyrir áhrifum siðblindra í grennd og umhverfi, þ.e.a.s. hvernig siðblindur maður getur framið sálarmorð á sínum nánustu; hneppt fjölskyldu sína í gíslingu og valdið skaða sem í skásta falli tekur aðra mörg ár að vinna úr og í versta falli er óbætanlegur. Það er ekki tilviljun að tekið er svo til orða um siðblinda: „Á meðal okkar eru þeir sem hafa enga samvisku. Þeir orða tilfinningar en hrærast ei tilfinningalega. Þeir bindast engri lifandi veru. […] Eina markmið þeirra í samskiptum er að drottna yfir undirsátum. Þeir eru hin fullkomnu rándýr mannkynsins.“1

Þótt vinsælt sé að tákna siðblinda með úlfsmyndum er þar illa farið með „góð“ rándýr því úlfar eru félagslyndir og veiða í hópum. Fyrir Íslending er kannski heppilegast að sjá fyrir sér mink þegar rándýrið siðblindingi / sækópati berst í tal.
 

Það hefði verið gaman að fjalla um mannfræðirannsóknir sem sýna að siðblinda þekkist í ýmsum samfélögum öðrum en vestrænum. Hér verður látið duga að minnast á niðurstöður Jane M. Murphy sem komst að því að meðal Yoruba ættbálkins í Nígeríu er til hugtakið arankan yfir mann sem ávallt fer sínar eigin leiðir án tillits til annarra, sem er ósamvinnuþýður, fullur illsku og þrjósku og meðal inúita í norð-vestur Alaska var svo til hugtakið kunlangeta sem bókstaflega þýðir „hugur hans veit hvað á að gera en hann gerir það ekki“ og er notað um mann sem brýtur reglur og norm, t.d. stelur, lýgur og fer ekki á veiðar en notar tækifærið þegar hinir karlarnir eru á veiðum til að misnota konur þeirra kynferðislega. Í inúítasamfélaginu sem Murphy rannsakaði var einn kunlangeta í 499 manna samfélagi. Hún spurði hvað hefði tíðkast að gera við mann af þessu tagi og var sagt að sennilega „hefði einhver hrint honum af ísjaka þegar enginn sæi til“.2
 

Það hefði líka verið spennandi að skoða hvaða máli siðblindugreining skiptir í lagalegu tilliti, í Evrópu og Bandaríkjunum. Af því siðblinda (psychopathy) er ekki viðurkennd sem sjálfstæð persónuleikaröskun þar sem DSM-IV og ICD-10 staðlarnir eru notaðir, heldur er einhvers konar undirþáttur í andfélagslegri persónuleikaröskun, vandast nokkuð málið. Sömuleiðis eru víða, t.d. í Bandaríkjunum, ekki notaðir sömu skilgreiningar í lagalegri umfjöllun og læknisfræðilegri umfjöllun þegar verið er að meta sakhæfi. Yfirleitt virðast siðblindir glæpamenn vera úrskurðaðir sakhæfir.3 Á Íslandi var það gert í Geirfinns- og Guðmundarmálinu fræga 1980 en þá átti  ICD-9 staðallinn að gilda á Íslandi og líklega hefur geðvilla verið innifalin í andfélagslegri persónuleikaröskun (því miður finn ég ekki upplýsingar um hvernig þessu var nákvæmlega varið í handbókinni sem fylgdi með gamla ICD-9 staðlinum). Það væri áhugavert að vita hvort geðvillugreining sé til marks um sakhæfi miðað við þau mál sem dómstólar hafa skorið úr um á undanförnum áratug eða svo, hér á landi. Mig grunar að núorðið sé reynt að fara kringum siðblindugreiningu skv. ICD-10 því eflaust eru siðblindir betur geymdir í öryggisgæslu á réttargeðdeild en í fangelsi. Bretar hafa reynt að fara kringum þetta vandamál með því að búa til sérstaka flokkun, DSPD (glæpamenn með „dangerous and severe personality disorder“) sem dekkar flesta þá siðblindu og hafa vistað slíka glæpamenn í stranga öryggisvörslu. Í meðferð og endurhæfingu DSPD-glæpamanna hefur síðan verið eytt ómældu fé en árangurinn er lítill sem enginn.4
 
 

Á tímabili var ég að hugsa um að skrifa eina færslu um fræga siðblindingja, t.d. morðingja á borð við Ted Bundy og Peter Lundin, fjárglæframenn, t.d. Bernie Madoff og Andrew Fastow og fleiri. Því miður uppgötvaði ég í þeim pælingum að minn uppáhalds reyfarahöfundur, Jeffrey Archer, hefur verið greindur siðblindur af geðlækni og reyndar bendir æviferill Archer sterklega til þess að greiningin sé alveg rétt. (Myndin er af Archer.)
 

Margt skondið hef ég rekist á í skoðun heimilda um siðblindu. Má nefna grein sem ég týndi því miður aftur þar sem borin voru saman markmið ýmissa sjálfshjálparbóka (þ.e. bóka sem eiga að kenna manni að verða hamingjusamari, öðlast aukið sjálfstraust, takast betur á við lífið o.þ.h.) og kjarnaeiginleikar siðblindu skv. gátlista Hare. Niðurstaðan úr þeirri umfjöllun var að nútíma sjálfshjálparfræði reyndu að kenna fólki að verða siðblindara. T.d. væri lögð þung áhersla á að velta sér ekki upp úr fortíðinni heldur horfa einungis fram á veginn, þ.e. æfa sig í skorti á eftirsjá; að setja sig sem mest í fyrsta sæti, þ.e. æfa sig í sjálfselsku og eiginhagsmunasemi; að hrósa sér stöðugt, þ.e. ýta undir bólgið sjálfsálit o.s.fr. Þetta þótti mér athyglisverður vinkill á sjálfshjálparfræði.
 

Einnig var gaman að lesa um hvernig forkólfar höfuðlagsfræða (phrenology, sem er „sú kenning, að tilteknir sálrænir hæfileikar eigi sér aðsetur á sérstökum svæðum heilans og snið hauskúpunnar á hverjum stað gefi vísbendingu um styrk þeirra hæfileika, sem undir búi“) og svipbrigðafræða (physiognomy) urðu óvart til að ýta undir þekkingu manna á geðröskunum, þ.á.m. siðblindum glæpamönnum.
 
 

En þótt öðru hvoru rækist ég á eitthvað skondið, jafnvel skemmtilegt, var heimildalestur um siðblindu yfirleitt ekki skemmtiefni, eðli málsins samkvæmt. Ég get ekki sagt að ég vorkenni siðblindum nema að því leyti að mér finnast það ömurleg örlög að fæðast án samvisku. Sá samviskulausi finnur samt væntanlega minnst fyrir því. Þótt hann geri sér grein fyrir að hann er öðruvísi en annað fólk og geti ekki myndað mannleg tengsl er honum alveg sama einmitt af því hann skortir samvisku og tilfinningar. Ég vorkenni aftur á móti öllum þeim sem verða á vegi slíks manns. Og tek heils hugar undir ráðleggingar Roberts D. Hare og fleiri: Eina ráðið er að flýja sem fætur toga og því fyrr því betra!
 
 
 



 

1 Meloy, J.Reid og Meloy M.J. 2002. „Autonomic arousal in the presence of psychopathy: A survey of mental health and criminal justice professionals“. Journal of Threat Assessment 2.árg. 2.tbl. 2002, s. 21-33.
 

2 Murphy, Jane M. 1976. „Psychiatric Labeling in Cross-Cultural Perspective. Similar kinds of disturbed behaviour appear to be labeled abnormal in diverse cultures“. Science 191.árg. 4231.tbl. mars 1976, s.1026
 

3 Sjá t.d. Pirelli, Gianni, William H. Gottdiener og Patricia A. Zapf. 2011. „A Meta-Analytic Review of Competency to Stand Trial Research“. Psychology, Public Policy, and Law 17.árg. 1.tbl. 2011, s. 1–53; Larsson, Johan. 2006. Psykopaten och rättvisan. Psykiskt störda lagöverträdare – med fokus på personlighetsstörningar (námsritgerð við lagadeildina í Háskólanum í Lundi, Svíþjóð); Christie, Nils. 2001. „Et humanistisk perspektiv på straffegjennomføringsloven“. Á síðu IKRS (Institutt for kriminologi og rettssosiologi). Textinn birtist á vefsíðunni 26. jan. 2009;
 
 

4 Sjá Warren, Fiona o.fl. 2001. Review of treatments for severe personality disorder (skýrsla unnin fyrir Home Office Department of Health and Prison Service. Dangerous and Severe Personality Disorder Programme); Kendell, R.E. 2002. „The distinction between personality disorder and mental illness“. The British Journal of Psychiatry 180. árg. 2002, s. 110-115 og Tyrer, Peter o.fl. 2010 „The successes and failures of the DSPD experiment: the assessment and management of severe personality disorder“. Medicine, Science and the Law 50. árg. 2.tbl. 2010, s. 95-99.

Af íslensku efni þar sem svolítið er fjallað um sakhæfi siðblindra hef ég einungis rekist á eina grein (en hef svo sem ekki leitað sérstaklega að þessu og væntanlega er til nýrra efni um þetta). Það er: Jónatan Þórmundsson. 1982. „Úrdráttur [svo] úr „Mat á geðrænu sakhæfi“ í Sjúkdómshugtakið: merking þess, notkun og takmarkanir í geðlæknis- og sálarfræði / [ritnefnd Haukur Hjaltason, Klaus Dieter Wiedmann, Kristján Sturluson]. Rit þetta er að stærstum hluta byggt á málþingi sem Félag sálfræðinema við Háskóla Íslands stóð fyrir í apríl 1981.
  


Gert 20. desember 2011
Harpa Hreinsdóttir