Til baka á forsíðu
 
Möguleg lækning siðblindu
 

FangaklefarÝmislegt hefur verið reynt til að ráða bót á siðblindu en árangurinn hefur verið afar lítill og sá litli árangur sem mælst hefur í sumum rannsóknum er talinn óáreiðanlegur enda snérust rannsóknirnar yfirleitt um miklu stærri og fjölbreyttari hóp en siðblinda eingöngu. Niðurstaða fræðimanna á borð við Robert D. Hare og J. Reid Meloy er að meðferð við siðblindu skili svo til engum árangri og geti verið til hins verra, þ.e. gert siðblinda glæpamenn enn hættulegri með því að kenna þeim að dylja eðli sitt betur. Þessu hefur verið andmælt, annars vegar með því að benda á annmarka í rannsóknum1 og hins vegar með því að stinga upp á ýmsum óprófuðum eða líttprófuðum aðferðum sem gætu komið að gagni. Mönnum er mjög í mun að finna einhverja lækningu á siðblindu vegna þess hve hættulegir siðblindir glæpamenn eru og vegna þess að siðblindir fangar eru í óþolandi stöðu. Þeim er annars vegar sagt að skilorð komi ekki til greina nema þeir taki þátt í meðferð og á hinn bóginn er þeim neitað um skilorð vegna þess að þeir eru siðblindir (skora hátt á PCL-R listanum). Í sama streng og gagnrýnendur rannsókna tekur Robert D. Hare: „Eins og er biðjum við siðblinda [fanga] að taka þátt í meðferðarprógrömmum sem eru ólíkleg til að skila árangri og blekkja þá og okkur til að halda að þátttakan sé einhvers virði og hafi hagnýtt gildi fyrir þá.“2

Flestir eru þó sammála um tvennt; að það borgi sig að lækna hliðarkvilla sem siðblindir eru oft haldnir, t.d. geðræna sjúkdóma á borð við þunglyndi, kvíða eða geðklofa og reyna að draga úr misnotkun vímuefna.3 Hitt er að það sé hugsanlega hægt að vinna einhvern bug á siðblindu sé gripið nógu snemma í taumana, þ.e. að röskunin sé greind strax á barnaldri eða unglingsaldri. Rannsóknir og greining á siðblindu í börnum og unglingum fela þó í sér mörg siðferðileg álitamál og eru vandmeðfarnar.4

Hér á eftir verður reynt að rekja helstu aðferðir sem reyndar hafa verið í meðferð fullorðinna siðblindra og hugmyndir um að siðblinda verði minna áberandi eftir því sem siðblindir eldast.
 
 

Aðgerðir á heila, meðferð á heila og notkun tölvutækni til breytinga á heila
 

LóbótómíaÁ fimmta áratug síðustu aldar naut svonefnd lóbótómía (reyndar var um að ræða nokkrar mismunandi útgáfur af þessari skurðaðgerð) geysilegrar hylli til lækninga geðrænna kvilla af ótrúlega fjölbreyttu tagi. Þetta gat verið lífshættuleg aðgerð og árangurinn vafasamur, þ.e. sjúklingar urðu oft skárri af sínum geðræna sjúkdómi en urðu í staðinn óvirkir, jafnvel hálfgert grænmeti eins og sést í þeirri frægu mynd Gaukshreiðrinu. Einhvern veginn hljómar það öfugsnúið, miðað við hvað nú er vitað, að skera sundur hvelatengsl í siðblindum eða hræra í þeim því vanstarfsemi í hvelatengslum er talin skýra siðblindu að einhverju leyti. Í lóbóbómtíu-tilraunum í Svíþjóð kom líka í ljós að siðblindir fangar urðu enn siðblindari eftir aðgerðina. Á danskri lokaðri réttargeðdeild voru gerðar sams konar tilraunir á sex föngum sem taldir voru siðblindir. Menn töldu að tveir hefðu hlotið bata af og getað tekið þátt í samfélaginu á eftir, þrír þjáðust af erfiðum geðrænum kvillum eftir aðgerðina og ekki fer sögum af hinum sjötta. Svoleiðis að árangurinn af lóbótómíu í meðhöndlun siðblindra var lítill eða enginn. (Reyndar hafa menn á síðari tímum efast um jákvæðan árangur lóbótómíu yfirleitt, hver sem sjúkdómsgreiningin var.)5

Einhverjir velta því fyrir sér hvort nútíma taugaskurðlækningar á heila eða notkun ígræddra rafskauta (Deep Brain Stimulation) geti hugsanlega gagnast við siðblindu í framtíðinni. En vegna hinnar skelfilegu reynslu af lóbótómíu-aðgerðunum sem eitt sinn voru svo vinsælar er farið mjög varlega í að orða þessar hugmyndir.6

Reynt hefur verið að beita raflækningum (Electroconvulsive Therapy) á siðblinda sjúklinga en fáar slíka tilraunir þykja hafa sýnt fram á neinar breytingar á kjarnaeinkennum siðblindu. Hugsanlega gæti slík meðferð þó komið að gagni ef siðblindir eru einnig haldnir alvarlegu þunglyndi, þ.e. læknað hliðarkvillann.7

Stungið hefur verið upp á að tilfinningastjórnun (Emotion regulation) gæti verið til bóta siðblindu, sem einhvers konar heilaleikfimi sem virki boðefnaframleiðslu og geti jafnvel breytt starfsemi möndlungs. Megi fylgjast með slíku með notkun sérstaks rauntíma-starfræns-heilaskanna (real time fMRI) og veita sjúklingnum endurgjöf jafnóðum á tölvuskjá.8 Þessi hugmynd byggir á þeirri skoðun að hægt sé að þjálfa upp samhygð/samlíðan. Fátt í árangri sálfræðimeðferðar siðblindra til þessa styður þá skoðun.
 

Lyf

Gerðar hafa verið tilraunir til að draga úr einkennum ýmiss konar persónuleikaraskana með sefandi lyfjum/ geðrofslyjum, þunglyndislyfjum, liþíum, bensó-lyfjum, örvandi lyfjum og krampastillandi lyfjum en fáar lyfjatilraunir hafa verið gerðar til að draga úr siðblindu eins og hún er skilgreind í greiningarlykli Hare. Á síðari tímum hefur lyfjagjöf þótt óákjósanlegur kostur í meðferð siðblindu enda er núorðið litið svo á að þetta sé meðfædd persónuleikaröskun sem lyf séu ólíkleg til að vinna bug á. Þær tilraunir sem hafa verið gerðar sérstaklega á siðblindum eru flestar gamlar og fólust einkum í notkun örvandi lyfja eða liþíums.
 


Almennt og yfirleitt má segja að ekki hafi verið sýnt fram á að siðblindu megi bæta með lyfjagjöf. Hins vegar geta lyf slegið á hliðarkvilla sem siðblindir eru oft haldnir.
 
 
 

Sálfræðimeðferð ýmiss konar
 

Margs konar sálfræðileg meðferð hefur verið reynd í því skyni að ráða bót á siðblindu. Flestir eru sammála um að hefðbundnar aðferðir skili ekki neinum árangri. Bent hefur verið á að hvöt þeirra sem eru til meðferðar er venjulega lítil, bæði vegna þess að þeir eru oftast skikkaðir í meðferð af dómstólum og að þeir sjá enga ástæðu sjálfir til að breyta persónuleikaeinkennum sínum. Vegna þessa hefur æ meir verið litið framhjá þörfum meðferðarþegans (hins siðblinda) og meiri áhersla verið lögð á að samfélagið sjálft sé þiggjandi meðferðarinnar; Meðferðin snúist ekki um að sinna röskun sjúklingsins heldur að draga úr þeim truflunum og skaða sem þeir valda öðrum.11

Nokkrar ástæður þess að siðblindum nýtist illa hefðbundin meðferð eru taldar þessar:

Afar erfitt er að fást við siðblinda og ættu einungis mjög hæfir meðferðaraðilar, sem eru mjög vel að sér um siðblindu, að sinna slíku verkefni. Siðblindur mun reyna að blekkja meðferðaraðilann og ná stjórn á honum með ýmsum lymskubrögðum. Athygli vekur að þeir sem fást við siðblinda hafa fundið fyrir ýmsum ósjálfráðum líkamlegum varúðarmerkjum í samskiptum við alvarlega siðblinda. Þeir lýsa þessu þannig: „Hárin risu á höfði mér“; „Hann lét mig fá gæsahúð“ eða „Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds við augnaráð hans.“ Talið er að stór meirihluti meðferðaraðila finni fyrir einhvers konar ósjálfráðum líkamlegum viðbrögðum af þessu tagi í návist mikið siðblinds sjúklings, jafnvel þótt hann sýni enga ógnandi hegðun. Sá sem einkum hefur lýst þessu telur að þetta séu ósjálfráð frumstæð óttaviðbrögð bráðar andspænis rándýri af sömu tegund. Hvatt er til þess að vera vakandi fyrir eigin viðbrögðum og nota þau sem vegvísi í frekari athugun sjúklinga með andfélagslegar persónuleikaraskanir.13
 

Hvers konar meðferð hefur verið reynd?

Í stuttu máli sagt má segja að næstum allar samtalsmeðferðir, einstaklingsviðtalsmeðferðir og hópmeðferðir hafi verið prófaðar til lækningar siðblindu.14 Sumir telja nauðsynlegt að greina milli mismunandi siðblindra og velja meðferðarform eftir undirtegundum. Hópi siðblindra með sterk kjarnaeinkenni siðblindu er um megn að finna samlíðan, finnur lítið fyrir kvíða og þunglyndi, skorar hátt í kaldlyndi og sjálfsdýrkun og hneigist til ofbeldis. Aðrir sem greinast mjög siðblindir upplifa mikinn kvíða og þunglyndi og eru oft haldnir hliðarröskunum á borð við jaðarpersónuleikaröskun. Síðari hópnum má hugsanlega hjálpa og þeir einstaklingar hafa getu til að tengjast meðferðaraðila eða ráðgjafa í einhvers konar bandalagi. Þetta þýðir ekki að gefast eigi upp á fyrrnefnda hópnum heldur er stungið upp á að fyrst sé best að vinna með þá sem eru heldur auðveldari viðfangs áður en menn snúa sér að erfiðari tilfellum.15

J. Reid Meloy heldur því fram að ekki skuli bjóða meðferð siðblindum sem sýna eftirtalin einkenni (enda muni meðferð ekki gagnast þeim):

Árásarargjarna hegðun og kvalalosta sem leiðir til limlestinga á öðrum; algeran skort á eftirsjá eða réttlætingu fyrrnefndrar hegðunar; mjög mikla greind eða lítilsháttar greindarskerðingu; sögu um að geta ekki tengst tilfinningaböndum og vekja skyndilegan frumstæður ótta sem reyndur læknir finnur fyrir í nálægð slíks sjúklings. Hann hefur gert grein fyrir ýmsum sálfræðilegum meðferðum sem prófaðar hafa verið á siðblindum og hættunum sem í hverju meðferðarformi felast. Hann varar sérstaklega við einstaklingsmeðferð og fjölskyldumeðferð en telur að hópmeðferð komi stundum til greina enda veiti hópurinn, t.d. aðrir siðblindir sem kunna öll trixin og svindlið, þeim siðblinda aðhald. Á hinn bóginn geti siðblindur einstaklingur auðveldlega rústað hópmeðferð sem kemur þá öðrum illa.16

Sársauki siðblindraHollenski geðlæknirinn Willem H. J. Martens er á öndverðum meiði við flesta aðra hvað orsakir siðblindu varðar og svo er einnig í uppástungu á læknismeðferð. Hann mælir með andlegri vakningu (Spiritual Psychotherapy) sem gagnlegri meðferð fyrir siðblinda. Í slíkri andlegri vakningarmeðferð felst t.d. að ræða visku og sjálfsþekkingu, stunda sjálfsrannsókn, læra hvernig skuli takast á við einsemd, sorg eða mistök, hvernig megi tengjast öðru fólki, vera í sambandi við aðra og þróa eigin siðareglur. Í slíkri meðferð megi taka dæmi úr bókmenntum, heimspeki, málverkum, leikritum, tónlist, kvikmyndum o.s.fr. en það er mjög mikilvægt að þessi dæmi tengist aðalvanda sjúklingsins og spurningum hans. Einnig má beita hugleiðslu, öndunaræfingum, kyrja, gera sér í hugarlund, hverfa til fyrra lífs o.fl. Markmið sálfræðimeðferðar sem byggist á andlegri vakningu er að hjálpa sjúklingnum að finna lausn á andlegum, siðferðilegum, tilfinningalegum eða sálfélagslegum vandamálum; að öðlast nægjusama og heilbrigða lífssýn og sýn á sjálfan sig og að auka ýmiskonar félagslega og siðferðilega hæfni.

Martens bendir á að hugsanlega muni siðblindir nota þá tækni sem þeir læra í slíkri meðferð til að drottna yfir öðrum eða til að sýna falska bót og betrun, jafnvel iðrun, til að sleppa fyrr út af lokaðri gæsludeild. Meðferðaraðilinn verður því að vera á varðbergi. En góður meðferðaraðili mun sjá að þessir sjúklingar hafa raunverulegan áhuga á andlegum málefnu og oft birtist hann í djúpstæðri sjálfsrannsókn, nýrri áttun og merkilegri aukningu í siðferðilegri, félagslegri og tilfinningalegri getu sjúklinganna (s.s. samlíðan, ábyrgð, sekt, hollustu og samúð).  Þeir siðblindu sem ekki eru móttækilegir fyrir meðferð af þessu tagi geta ekki dulið óbeit sína nema um stund og verður þá sennilega að vísa þeim frá.17

Robert D. Hare telur að meðferðarprógramm fyrir siðblinda afbrotamenn ætti ekki að beinast að því að þróa samlíðan og samvisku eða reyna hafa áhrif á persónuleika, því það sé vita tilgangslaust,  heldur sannfæra þáttakendur um að þeir einir beri ábyrgð á hegðun sinni og kenna þeim að nota eigin styrk og hæfileika til að uppfylla þarfir sínar og óskir um leið og þeir taka tillit til annarra. Árangurinn þyrfti að meta vandlega og empírískt jafnóðum og aðlaga meðferðina að einstaklingum. Það þýðir að sumt í slíkri meðferð myndi nýtast siðblindum en ekki öðrum afbrotamönnum og öfugt.

Menn ættu ekki að vera of bjartsýnir í meðferð siðblindra, segja Hare og Stephen C. P. Wong, því Sál breytist ekki í Pál, svo notað sé biblíulíking. Það skásta sem má vonast eftir er að siðblindir sem ljúka meðferð vilji marktækt síður beita ofbeldi en áður. Jafnvel þótt tiltölulega lítið dragi úr árásarhneigð og ofbeldi siðblindra er slíkt risastór plús fyrir samfélagið.18
 
 

Siðblindueinkenni dvína með aldrinum

Skv. Robert D. Hare o.fl. dvína einkenni þáttar 2 í siðblindu, afbrigðilegs félagslegs lífstíls, með aldrinum en þáttur 1, ógnandi sjálfsdýrkun, helst óbreyttur. Þetta bendir til að siðblindum takist að einhverju leyti að laga sig að samfélaginu þótt persónuleikaeinkenni þeirra séu óbreytt, þ.á.m. megindrættirnir sjálfselska, drottnunargirni og kaldlyndi. Hare segir eftirfarandi sögu til að útskýra hvað hann á við:

Fangelsissálfræðingur sem var viðstaddur einn af fyrirlestrum mínum sagði frá siðblindum afbrotamanni með sögu um ofbeldi sem hafði „endurfæðst og náð félagslegri endurhæfingu í fangelsinu“ og var sleppt á skilorði. Í mörg ár virtist hann vera fyrirmyndar skilorðsfangi en nýlega hafði skilorðsfulltrúinn hans frétt að þessi fyrrum fangi bjó með ruglaðri konu, sem einungis gegndi því hlutverki að vera ævinlega tilbúin sem kynlífstól og boxpúði. Af því hún trúði því að hún ætti þessa misnotkun skilda kærði hún ekki til lögreglunnar. Þessi maður var vissulega ekkert minna siðblindur en þegar hann var í fangelsinu, hann hafði einfaldlega komið sér upp öðru kerfi í andfélagslegri og kaldlyndri hegðun.19
Siðblindir brenna út eftir róstursamt líf og langvarandi dulda þjáningu

Á öndverðum meiði við Hare er hollenski geðlæknirinn Willem H. J. Martens, eins og áður sagði. Hann hefur gagnrýnt gátlista og greiningarkerfi Hare mjög harkalega og hefur allt aðra sýn á siðblindu. Í greiningu Cleckley og seinna Hare er litið framhjá, segir Martens, hinni tilfinningalegu þjáningu og einsemd þess siðblinda. Þegar horft er á þessa þætti mun skilningur okkar á þeim siðblinda verða mannúðlegri.

Martens segir að margir siðblindir geti ekki haldið uppi sama orkufreka lífsstílnum þegar aldurinn færist yfir þá. Þeir brenni út sem gæti tengst taugalíffræðilegum breytingum og/eða félagslegum og tilfinningalegum þroska. Óbærileg og langvarandi einsemd gæti líka valdið því að tilfinninganæmi þeirra yrði óeðlilegt. Slíkt gæti brotist út í reiði vegna þess að allir gefast upp á þeim; miklum ótta við að í félagslegum samskiptum verði þeir skildir útundan; tilfinningalegri kvöl vegna félaglegra og tilfinningalegra takmarkana; ákafri þörf fyrir ást og aðdáun og jafnvel viðkvæmni og hluttekningu með fórnarlömbum. Martens nefnir dæmi af morðingjanum Dennis Nilsen sem var svo einmana að hann drap fólk, stillti því upp og horfði með líkunum á sjónvarpið eða talaði við þau klukkustundum saman. Hin dulda þjáning gerir félagslegan og tilfinningalegan þroska mögulegan því sársaukinn gæti krafist rótttækra lausna á félagslegum og tilfinningalegum vandamálum og ýtt undir að andfélagslegir þættir breytist í takt við þá félagslegu hæfni sem tíðkast.20
 

Málverk van Gogh af gömlum manniMartens hefur skrifað grein um dulda þjáningu hins siðblinda. Þar segir hann að eins og allir aðrir þrái siðblindir að vera elskaðir og sýnd umhyggja. En þessi ósk sé oft óuppfyllt því augljóslega er erfitt fyrir aðra persónu að tengjast einhverjum með svo fráhrindandi persónuleikadrætti nánum böndum. Öðru hvoru gera siðblindir sér grein fyrir áhrifum hegðunar sinnar á aðra og geta orðið raunverulega hryggir yfir vanmætti sínum í að stjórna henni. Í líf flestra siðblindra vantar stöðugt félagslegt net og náin hlýleg tengsl við aðra.

Oft finnst siðblindum að þeir hafi fengið færri tækifæri en aðrir í lífinu og saga þeirra einkennist oft af óreiðukenndu fjölskyldulífi í æsku, skorti á athygli og leiðsögn foreldra, vímuefnamisnotkun og andfélagslegri hegðun foreldra. Síðar eigi þeir oft sjálfir í slæmum samböndum og skilnaði. Þrátt fyrir að siðblindir séu roggnir og góðir með sig líður þeim innst inni eins og þeir séu óæðri öðrum og þeir vita að eigin hegðun brennimerkir þá. Þótt sumum siðblindum takist á yfirborðinu að aðlagast umhverfinu og verði jafnvel vinsælir þá finnst þeim stöðugt að þeir verði að dylja hið sanna eðli sitt vandlega því öðrum muni ekki hugnast það. Þetta setur siðblindum tvo kosti og báða illa; að aðlagast og taka þátt í tómlegu þykjustulífi eða aðlagast ekki og lifa einmanalegu lífi, einangraðir úr samfélaginu. Þeir verða vitni að þeirri ást og vináttu sem aðrir deila og finna fyrir höfnun vitandi að þeir munu aldrei eiga hlutdeild í slíku.

Eftirsókn siðblindra í spennu er gífurleg en fífldjörf ævintýrin enda ævinlega í vonbrigðum því væntingar voru óraunhæfar og þeir eru alltaf að lenda upp á kant við aðra. Það dregur smám saman kjarkinn úr siðblindum að þeim er um megn að stjórna spennuþörfinni og þurfa hvað eftir annað að horfast í augu við veikleika sína. Jafnvel þótt þeir reyni að breytast mun lágt óttaviðbragð og vanmáttur því tengdur til að læra af reynslunni leiða til endurtekinna neikvæðra og niðurdrepandi árekstra við aðra, jafnvel svo alvarlegra að þeir eru dæmdir í fangelsi.

Eftir því sem aldurinn færist yfir siðblinda geta þeir ekki viðhaldið orkufrekum lífsstíl sínum. Þeir brenna út og fyllast depurð þegar þeir líta um öxl á hvíldarlaust líf sitt þar sem fátt er um ánægjuleg samskipti við annað fólk.

Það er því mjög mikilvægt að þekkja hina huldu þjáningu, einmanaleika og skort á sjálfstrausti siðblindra. Og nauðsynlegt er að halda áfram lyfjafræðilegum, taugasálfræðilegum og sálfræðilegum tilraunum til að koma í veg fyrir og laga siðblinduhegðun, segir Martens.21
 

Niðurstöður

Enn hefur ekki fundist nein aðferð til að lækna siðblindu eða draga marktækt úr henni. Allt mögulegt hefur verið reynt og í nýrri umfjöllun er áberandi að sumir fræðimenn fálma eftir stráum, trúa því ekki síðasta hálmstráið hafi brugðist enn og stinga upp á ýmsum óprófuðum leiðum í blindni. Bent er á að þeir siðblindu séu í rauninni ekki taldir viðfang meðferðar heldur leiti menn meðferðar með logandi ljósi til hagsbóta fyrir samfélagið, þ.e. hina, sem er auðvitað siðferðilegt álitamál í læknisfræði. En siðblindir skilja eftir sig slóð fórnarlamba hvort sem þeim tekst að halda sig utan múra eða lenda í fangelsi og því er afar mikilvægt að takist að finna einhverja leið til að draga úr skaðsemi þeirra.

Robert D. Hare, sem hefur helgað starfsævi sína rannsóknum á siðblindum, virðist raunsær og telur enga lækningu á siðblindu í sjónmáli. Það skásta sem hægt sé að gera er að sníða einhvers konar meðferð eftir eðlisþáttum siðblindra og höfða til þess að þeir græði á að haga sér skikkanlegar. Hann býst samt ekki við neinum stórkostlegum árangri af slíkri meðferð.

Hugmyndir Martens finnast mér mjög vafasamar, eftir að hafa kynnt mér siðblindu um hríð, enda er andleg vakning stór þáttur í tólf spora kerfum ýmiss konar og grundvallaratriðið þar er að viðurkenna vanmátt sinn, vera tilbúin(n) að hlíta leiðsögn annarra og horfast í augu við fyrri mistök og misgerðir. (Í máli Martens kemur fram að þetta er innifalið í hans andlegu vakningarmeðferð en hann orðar það ekki eins einfalt.) Grundvallaratriðin í andlegri vakningu stangast algerlega á við einkenni siðblindu og hlýtur að reynast þeim um megn að uppfylla þau skilyrði.

Hins vegar er ekki ólíklegt að Martens hafi rétt fyrir sér um einsemd og dulda þjáningu hins siðblinda þegar aldurinn færist yfir hann. Maður er manns gaman og það hlýtur að gilda hið sama um siðblinda. Þegar siðblindur hefur hrakið alla frá sér og getur ekki lengur fengið útrás fyrir spennuþörf sína vegna þess að aldurinn færist yfir hann hlýtur honum að líða illa. En því miður er hann haldinn (enn) ólæknandi persónuleikaröskun og því lítið hægt að liðsinna honum nema lækna þá hliðarkvilla sem hann kann að vera haldinn.
 


1 D’Silva, Karen, Conor Duggan og Lucy McCarthy. 2004. „Does Treatment Really Make Psychopaths Worse? A Review of the Evidence“. Journal of Personality Disorders 18.árg. 2.tbl. 2004, s. 163-177.  Í þessari yfirlitsgrein yfir rannsóknir á meðferðarárangri við siðblindu er bent á alvarlega aðferðafræðilega galla á þeim langflestum og að þær hafi frá upphafi ekki miðað að því að rannsaka siðblindu heldur hafi upplýsingarnar sem fengust verið nokkurs konar aukaafurðir. Flestar rannsóknirnar voru gerðar á siðblindum glæpamönnum í fangelsum. Auk aðferðafræðilegra galla hafi ýmist skort á langtímaeftirfylgni og/eða vantað samanburðarhóp siðblindra utan múranna. Höfundar taka ekkert tillit til þess að svoleiðis samanburðarhópur er varla tiltækur og hæpin finnst mér niðurstaða þeirra að rannsóknirnar 24 sem skoðaðar voru séu engan veginn marktækar einungis af því að ströng aðferðafræðileg skilyrði voru ekki uppfyllt.
 

2 Hare, Robert D. 1998. „Psychopaths and Their Nature: Implications for the Mental Health and Criminal Justice Systems“ í Psychopathy: Antisocial, Criminal, and Violent Behavior. Ritstjórar: Theodore Millon og Morten Birket-Smith. The Guilford Press 1998, s. 203.
 

3 Lee, Jessica H. 1999. The Treatment of Psychopathic and Antisocial Personality Disorders: A Review. Á vef RAMAS (Risk Assessment Management and Audit Systems).
 

4 Glenn, Andrea L. og Adrian Raine. 2008. „The Neurobiology of Psychopathy“. Psychiatric Clinics of North America 31, 2008, s. 463–475. Í þessari grein kemur fram að hægt sé að greina siðblindu í börnum allt frá þriggja ára aldri. Er vitnað í fjölda rannsókna því til stuðnings að siðblindu sé hægt að greina mjög snemma og að snemmtæk íhlutun geri líklega eitthvert gagn. Einnig má benda á rannsókn sem bar saman siðblindueinkenni í 4- 12 ára hollenskum og grískum börnum. Niðurstöður bentu til þess að einkennin væru eins og algengi/sjaldgæfi hið sama. Sjá Manti, Eirini, Evert M. Scholte, Ina A. Van Berckelaer-Onnes og Jan D. Van Der Ploeg. 2009. „Social and emotional detachment: A cross-cultural comparison of the non-disruptive behavioural psychopathic traits in children“. Criminal Behaviour and Mental Health 19. árg. 3. tbl. júlí 2009, s. 178-192.
 

5 Um lóbótómíu (sem á íslensku hefur verið kölluð hvítuskurður/geiraskurður, hið fyrrnefnda væntanlega þýðing á danska orðalaginu „det hvide snit“) má t.d. lesa í:

Orri Páll Ormarsson. 2007. „Kleppur er víða“. Morgunblaðið, sunnudaginn 27. maí 2007.

Heiða María Sigurðardóttir. 2006. „Til hvers voru sálskurðlækningar eins og lóbótómía notaðar?Vísindavefurinn 23. 3. 2006.

Lidberg Lars og Magnus Broberg. 1996. „Psykokirurgins historia. Från lobotomi till kapsulotomi“. Läkartidningen 93.árg 38.tbl. 1996, s. 3245-50. Í greininni kemur fram að aðgerðin, eins og hún var iðkuð í Svíþjóð, tók um tíu mínútur og einungis húðin var saumuð saman á eftir. Yfirleitt var einungis staðdeyft nema sjúklingurinn væri sérlega órólegur, þá var hann svæfður.

Alfreð Gíslason, Bjarni Oddsson og Kristján Þorvarðsson. 1952. „LOBOTOMIA“. Læknablaðið 36.árg. 7.tbl. 1952, s. 97-112. Í þessari grein segir frá tilraunum íslenskra lækna í lóbótómíu. Þar kemur fram að við „psykopati og geðsjúkdóma í sambandi við flogaveiki og fávitahátt hefur lobotomia verið beitt. … þá er lobotomi réttmæt aðgerð og gefur enda oft góða raun.“ (s. 101, feitletrun min) og að „ég [Alfreð Gíslason?] hef gert 28 frontal lobotomíur á St. Jósefs spítalanum í Reykjavík., af þeim hefir einn dáið.“ (s. 104.) Síðan er sagt frá tilraunum dr. Bjarna Oddssonar í lóbótómíu, af 20 sjúklingum sem athugaðir voru talsvert eftir aðgerðina var 1 dáinn. Bjarni skar í heila tveggja með psykopati og af nákvæmum sjúkraskýrslum, þar sem nöfn sjúklinga eru einungis skammstöfuð, sést að annars vegar var um að ræða 19 ára konu sem „hefir frá 10 ára aldri verið þjófgefin og ósannsögul. Eftir 13 ára aldur mjög vergjörn (erotoman) og lauslát.“ Hálfu ári eftir aðgerðina er hún „róleg og ekki sljó. Hefir unnið við eldhússtörf í héraðsskóla í sveit, komið sér vel. … Árangur: Betri.“ (s. 110-11.) Hinn psykopati-sjúklingurinn var 24 ára verkamaður, frá barnsaldri „órólegur, veiklaður og æstur á geðsmunum, gekk í svefni sem barn. Þegar í bernsku bar á óknyttum og hnupli og slæpingshætti … drakk og svallaði … Amfetamin-neyzla undanfarið.“ Níu mánuðum eftir aðgerð er „Áfengisneyzla minni en áður, rólegur og góður í umgengni, bæði á heimili og utan. Ekki amfetaminneyzla svo vitað sé, engin lögbrot. Svefn eðlilegur. Útlit hraustlegt, en æstur og illur við vín, eins og áður. Árangur: Miklu betri.“ (s. 108) Af þessum dæmum sést að sjúkdómsgreiningin psykopati er nokkuð ólík þeirri greiningu sem tíðkast nú á tímum.
 

6 Glannon, Walter. 2008. „Altering the Brain and Mind“. Ritdómur um Intervening in the Brain: Changing Psyche and Society. (Ritstjórar Merkel, Reinhard o.fl. Ethics of Science and Technology Assessment, 29. bindi. 2007) í Hastings Center Report 38.árg. 4.tbl., júlí/ágúst 2008, s. 46-47. Glannon segir: „Höfundarnir slá því föstu að ef bjóðist einhvers konar heila-aðgerð eða meðferð við alvarlegri siðblindu þá er ekki bara svo að okkur leyfist að nota hana heldur værum við skyldug til að bjóða slíka aðgerð/meðferð sem valkost við lífstíðar innilokun á stofnun.“ Ritdómurinn var skoðaður í febrúar 2011 en finnst ekki á Vefnum 17. september 2011.
 

7 Lee, Jessica H. 1999. „Physical treatments“ í The Treatment of Psychopathic and Antisocial Personality Disorders: A Review. Á vef RAMAS (Risk Assessment Management and Audit Systems).
 

8 Sitaram, Ranganatha, Andrea Caria, Ralf Veit, Tilman Gaber, Giuseppina Rota, Andrea Kuebler og Niels Birbaumer. 2007. „fMRI Brain-Computer Interface: A Tool for Neuroscientific Research and Treatment“. Computational Intelligence and Neuroscience 2007. Svipað er gefið í skyn í blálokin á þessari grein: Eippert, Falk, Ralf Veit, Nikolaus Weiskopf og Michael Erb. 2007. „Regulation of Emotional Responses Elicited by Threat-Related Stimuli“. Human Brain Mapping 28 2007, s. 409–423 og í undir lok greinar Katarina Wahlund o.fl. 2009. „Psykopati och hjärnavbildning – en litteraturgenomgång. Med fokus särskilt på funktionell magnetisk resonanstomografi“. Läkartidningen 106.árg 6.tbl. 2009, s. 361-365.
 

9 Crocketta, Molly J., Luke Clarka, Marc D. Hauserb og  Trevor W. Robbins. 2010. „Serotonin selectively influences moral judgment and behavior through effects on harm aversion“. Proceedings of the National Academy of Sciences (PNAS). Aðalheimildin fyrir því sem segir í klausunnu um lyfjatilraunir við siðblindu er  Lee, Jessica H. 1999. The Treatment of Psychopathic and Antisocial Personality Disorders: A Review. Á vef RAMAS (Risk Assessment Management and Audit Systems).
 

10 Martens, Willem H. J. 2008. Undirkaflinn „Psychopaths are Treatable“ í greininni „Forensic Psychiatry.The Problem with Robert Hare’s Psychopathy Checklist: Incorrect Conclusions, High Risk of Misuse, and Lack of Reliability“. Medicine and Law 27 2008, s. 449-462.
 

11 Van den Berg, Anne og Karel T.I. Oei. 2009. „Attachement and psychopathy in forensic patients. The (in)ability of serverly psychopathic patients to commit to therapeutic relations, considered from the perspectives of Attachment Theory and Mentalization-Based Treatment“. Mental Health Review Journal, 14.árg. 3.tbl. 2009, s. 40-51. Sjá einnig Meloy, J. Reid og James A Reavis. 2007. „Dangerous cases: when treatment is not an option“. Severe Personality Disorders. Everyday Issues in Clinical Practice. Ritstjórar: Bert van Luyn, Salman Akhtar og John Livesley. Cambridge University Press, 2007
 

12 Van den Berg, Anne og Karel T.I. Oei. 2009. „Attachement and psychopathy in forensic patients. The (in)ability of serverly psychopathic patients to commit to therapeutic relations, considered from the perspectives of Attachment Theory and Mentalization-Based Treatment“. Mental Health Review Journal, 14.árg. 3.tbl. 2009, s. 40-51
 

13 Meloy, J. Reid og James A Reavis. 2007. „Dangerous cases: when treatment is not an option“. Severe Personality Disorders. Everyday Issues in Clinical Practice. Ritstjórar: Bert van Luyn, Salman Akhtar og John Livesley. Cambridge University Press, 2007 og Meloy, J. Reid og Jessica Yakeley. 2010. „Psychodynamic Treatment of Antisocial Personality Disorder“ í Psychodynamic Psychotherapy for Personal Disorders: A Clinical Handbook. Ritstjórar: John F. Clarkin, Peter Fonagy og Glen O. Gabbard. American Psychiatric Pub. 2010, s. 311-336.  Var aðgengilegr til skoðunar á Bækur Google í febrúar 2011.
 

14 Sjá t.d. upptalingu í D’Silva, Karen, Conor Duggan og Lucy McCarthy. 2004. „Does Treatment Really Make Psychopaths Worse? A Review of the Evidence“. Journal of Personality Disorders 18.árg. 2.tbl. 2004, s. 163-177.
 

15 Hesse, Morten. 2010. „What should be done with antisocial personality disorder in the new edition of the diagnostic and statistical manual of mental disorders (DSM-V)?BMC Medicine 27. október 2010.
 

16  Meloy, J. Reid og James A Reavis. 2007. „Dangerous cases: when treatment is not an option“. Severe Personality Disorders. Everyday Issues in Clinical Practice. Ritstjórar: Bert van Luyn, Salman Akhtar og John Livesley. Cambridge University Press, 2007 og Meloy, J. Reid og Jessica Yakeley. 2010. „Psychodynamic Treatment of Antisocial Personality Disorder“ í Psychodynamic Psychotherapy for Personal Disorders: A Clinical Handbook. Ritstjórar: John F. Clarkin, Peter Fonagy og Glen O. Gabbard. American Psychiatric Pub. 2010, s. 311-336.  Var aðgengilegr til skoðunar á Bækur Google í febrúar 2011.
 

17  Martens, Willem H. J. 2003. „Spiritual Psychotherapy for Antisocial and Psychopathic Personalities: Some Theoretical Building Blocks“. Journal of Contemporary Psychotherapy 33.árg. 3.tbl. haust 2003.
 

18 Hare, Robert D. 1998. „Psychopaths and Their Nature: Implications for the Mental Health and Criminal Justice Systems“. Psychopathy: Antisocial, Criminal, and Violent Behavior. Ritstjórar: Theodore Millon og Morten Birket-Smith. The Guilford Press, 1998, s. 203. Sjá einnig tilvitnun í Wong, S. C. P. & Hare, R. D. 2005 Guidelines for a Psychopathy Treatment Program. Multi-Health Systems, s. 9, í lok greinar Wong, Stephen C. P., Audrey Gordon og  Deqiang Gu. 2007. „Assessment and treatment of violence–prone forensic clients: an integrated approach“. The British Journal of Psychiatry 190,  2007, s.66-74.
 

19 Harpur, Timothy J. og  Hare, Robert D. 1994. „Assessment of Psychopathy as a Function of Age“. Journal of Abnormal Psychology, 103.árg. 4.tbl. nóv. 1993, s. 604-609. Einungis útdrátturinn var skoðaður. Sjá einnig Hare, Robert D. 1998. „Psychopaths and Their Nature: Implications for the Mental Health and Criminal Justice Systems“. Psychopathy: Antisocial, Criminal, and Violent Behavior. Ritstjórar: Theodore Millon og Morten Birket-Smith. The Guilford Press, 1998, s. 197-198.
 

20 Sjá  Martens, Willem H. J. 2008. „Forensic Psychiatry. The Problem with Robert Hare’s Psychopathy Checklist: Incorrect Conclusions, High Risk of Misuse, and Lack of Reliability“. Medicine and Law 27 2008, s. 449-462;  Martens, Willem H. J. 2003. „Emotional Capacities and Sensitivity in Psychopaths“. Dynamical Psychology. An International, Interdisciplinary Journal of Complex Mental Processes maí 2003, s. 1-20 og Martens, Willem H. J. 2002. „The Hidden Suffering of the Psychopath“. Psychiatric Times 19.árg. 1.tbl. 2002.
 

21 Martens, Willem H. J. 2002. „The Hidden Suffering of the Psychopath“. Psychiatric Times 19.árg. 1.tbl. 2002.
 

Allar heimildir voru skoðaðar í febrúar 2011 og aftur í september 2011.

Gert 17. september 2011
Harpa Hreinsdóttir