Til baka á forsíðu
 
Einkenni siðblindu skv. Robert D. Hare
 

Sálfræðingurinn Robert D. Hare hefur varið stórum hluta starfsævi sinnar í rannsóknir á siðblindu. Um hana hefur hann skrifað fjölda greina og bóka. Frægust bóka hans er líklega Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, sem kom fyrst út 1993.1

Hare byggði að einhverju leyti á gátlista Cleckleys2 og hannaði sérstakt greiningartæki til að greina siðblinda einstaklinga, PCL-R („the Psychopathy Check List“ eða gátlista yfir siðblindu, R stendur fyrir „Revised“, þ.e. endurskoðaður) ásamt fleiru. Vel að merkja leggur Hare þunga áherslu á að einungis reynt fagfólk geti greint siðblindu og handbókin um notkun listans er ekki afhent hverjum sem er (m.a. vegna þess að siðblindir fangar gætu þá lært á viðtalstæknina og logið til um svörin). Greiningin felst í hálf-stöðluðum viðtölum, ítarlegri skoðun á sögu  viðkomandi o.fl. en grunnurinn að greiningunni er þessi gátlisti. Þótt Hare taki almenningi vara fyrir að greina aðra siðblinda opinberlega (því slíkt sé einungis á færi reyndra fagmanna) er honum mjög í mun að fólk þekki einkenni siðblindu vel, til að það geti varað sig á siðblindum einstaklingum í samfélaginu.

Í PCL-R eru talin upp 20 einkenni sem eru dæmigerð fyrir siðblinda einstaklinga. „Helmingur einkennanna eru svokölluð kjarnaeinkenni siðblindu og hafa með tilfinningalíf og samskipti við aðra að gera. Hinn helmingurinn lýsir lífsstíl og andfélagslegri hegðun […] Fyrir hvert einkenni er gefið 0-1-2 stig; 0 ef einkennið er ekki til staðar, 2 ef það er afgerandi til staðar og 1 ef það er einungis til staðar að hluta til. Til verður þá litróf frá 0 - 40, þar sem mest siðblindu einstaklingarnir eru með 40 stig, venjulegir þjóðfélagsþegnar með undir 5 stigum, og næst 0 stigum líklega ekki aðrir en helgustu dýrlingar. Til að fá  siðblindugreiningu þarf 30 stig (25 stig sums staðar, t.d. á Norðurlöndunum.)“3

Það dugir sem sagt ekki að hafa einhver einkenni af listanum því siðblinda er heilkenni, þ.e.a.s. fjöldi tengdra einkenna. Og auðvitað eru margir sem hafa einhver neðantalinna einkenna, án þess að vera siðblindir.

Einkennin í greiningarkvarða/ gátlista Roberts D. Hare4 eru þessi:  (Íslenska þýðingin er að stórum hluta byggð á fyrrnefndri grein Nönnu Briem. 2009, s. 26.)
 
Factor 1
Aggressive narcissism
 1. Glibness/superficial charm
 2. Grandiose sense of self-worth
 3. Pathological lying
 4. Cunning/manipulative
 5. Lack of remorse or guilt
 6. Emotionally shallow
 7. Callous/lack of empathy
 8. Failure to accept responsibility for own actions
Þáttur 1
Ógnandi sjálfsdýrkun
 1. Tungulipurð / yfirborðskenndir persónutöfrar
 2. Stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti
 3. Lygalaupur
 4. Slóttugur, falskur, drottnunargjarn
 5. Skortir á eftirsjá eða sektarkennd
 6. Yfirborðskennt tilfinningalíf
 7. Kaldlyndur / skortir samhygð5
 8. Ábyrgðarlaus um eigin hegðun (kennir öðrum um)
Factor 2
Socially deviant lifestyle
 1. Need for stimulation/proneness to boredom
 2. Parasitic lifestyle
 3. Poor behavioral control
 4. Promiscuous sexual behavior
 5. Lack of realistic, long-term goals
 6. Impulsiveness
 7. Irresponsibility
 8. Juvenile delinquency
 9. Early behavioral problems
 10. Revocation of conditional release
Þáttur 2
Afbrigðilegur félagslegur lífstíll
 1. Spennufíkill / leiðist auðveldlega
 2. Sníkjudýr (á öðrum eða „kerfinu“)
 3. Léleg sjálfstjórn
 4. Lauslæti
 5. Skortir raunsæ langtímamarkmið
 6. Hvatvísi
 7. Ábyrgðarleysi
 8. Afbrot á unglingsárum
 9. Hegðunarvandamál í æsku
 10. Brot á skilorði

Traits not correlated with either factor
 1. Many short-term marital relationships
 2. Criminal versatility

 Einkenni sem tengjast hvorugum þættinum
 1. Mörg skammtíma ástarsambönd
 2. Fjölskrúðugur afbrotaferill

Þáttur 1 mælir svokölluð kjarnaeinkenni siðblindu og snýr að tilfinningalífi og samskiptum við aðra. Þáttur 2 lýsir lífsstíl og andfélagslegri hegðun. Loks eru tvo einkenni sem tilheyra hvorugum meginþáttanna.  Siðblindur einstaklingur mun skora hátt á báðum aðalþáttunum meðan sá sem er haldin(n) andfélagslegri persónuleikaröskun skorar einungis hátt í þætti 2.

„Meðalstigafjöldi [bandarískra] karlkyns- og kvenkyns glæpamanna eru 22 og 19 stig. Einstaklingur með stig á bilinu 10 - 19 er með væga siðblindu, ef stigafjöldinn er á bilinu 20 -29 [24] eru  siðblindueinkennin töluverð […]“ (Nanna Briem, 2009, s. 26). Áréttað skal að í Svíþjóð og Danmörku duga 25 stig til að teljast með fulla siðblindu. Því miður veit ég ekki hvernig þessu er varið á hinum Norðurlöndunum.


1 Á vefsíðu Roberts D. Hare má bæði sjá yfirlit yfir hans eigin verk (og krækjur í það sem er aðgengilegt á Vefnum), sem og krækjur og ábendingar um efni sem hann mælir með. Sjá „Without Conscience“. Robert Hare's Web Site devoted to the study of Psychopathy. Síðast skoðuð 22. ágúst 2011.

2 Um tengslin milli kenninga Cleckley og Roberts D. Hare má t.d. lesa í Hare, Robert D og Craig S. Neumann. 2007. „Psychopathy as a Clinical and Empirical Construct“.  Annual Review of Clinical Psychology 2008. 4., s. 217–46. Hér er krækt í sérútgáfu, pdf-skjal á Vefnum, sem skoðuð var 22. ágúst 2011.

3 Nanna Briem. 2009. „Um Siðblindu“ í Geðvernd 38. tbl., s. 25 - 29. Hér er krækt í pdf-útgáfu af greininni sem er aðgengileg í Hirslu Landspítala-Háskólasjúkrahúss.

Svo virðist að glæpamenn í fangelsum í Svíþjóð, Kanada og Bretlandi skori lægra á gátlista Hare yfir siðblindu en bandarískir glæpamenn  þótt þeir hafi að öðru leyti jafnsterk einkenni siðblindu og forspárgildi greiningarinnar fyrir endurteknum glæpum sé hið sama. Sjá um þetta t.d.  Hare, Robert D., Danny Clark,  Martin Grann; David Thornton, „Psychopathy and the predictive validity of the PCL-R: an international perspective“ í Behavioral Sciences & the Law, okt. 2000, 18. árg., 5. tbl., s. 623-645. Sjá einkum s. 625. Skoðað á Vefnum (pdf.skjal) þann 6. janúar 2011.

4 Hare, Robert D. 1999. Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us. Guilford Press, New York, s. 33-34. Sjá einnig umfjöllun um PCL-R listann á Wikipediu.

Gátlisti og greiningaraðferð Hare hefur ekki verið viðurkennd í þeim tveimur greiningarkerfum geðlæknisfræðinnar sem einkum er stuðst við í hinum vestræna heimi, þ.e. evrópska kerfið frá Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (WHO, greiningarstaðallinn kallast ICD-10) og kerfi Bandarísku geðlæknasamtakanna (APA, greiningarkerfið kallast DSM). Þessi greiningarkerfi gera ráð fyrir andfélagslegri persónuleikaröskun en Hare og fleiri hafa haldið því fram að siðblinda sé tiltölulega fámennur undirflokkur hennar. (Sjá um þessi greiningarkerfi og stöðu siðblindu í þeim síðuna „Antisocial personality disorder“ á Wikipediu. ICD-10, sem er notaður á Íslandi, er aðgengilegur á skafl.is) Bandarísku geðlæknasamtökin gefa út Greiningar- og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) og er nú notuð útgáfan DSM-IV. Þar er fjallað um andfélagslega persónuleikaröskun en það er miklu víðari skilgreining en siðblindugreiningarlykill Roberts Hare.

Aftur á móti er þessi ameríska Greiningarhandbók í endurskoðun og er stefnt að útgáfu DSM-5 í maí 2013. Skilgreiningu á andfélagslegri persónuleikaröskun hefur verið gerbreytt í drögum að DSM-5 og segir:  „The work group is recommending that this disorder be reformulated as the Antisocial/Psychopathic Type“ og telur svo upp höfuðeinkenni í lista Hare. Það má því ætla að greiningarlykill Hare muni hafa æ meiri áhrif á næstu árum. Sjá „301.7 Antisocial Personality Disorder“ í  American Psychiatric Association DSM-5 Development, skoðað 6. jan. 2011. Slóðin virkar ekki 22. ágúst 2011.

Fylgjast má með breytingum á greiningarstöðlunum ICD-10 og DSM-5 á síðunni DSM-5 and ICD-11 Watch. Skoðað 22. ágúst 2011.
 

5. „Empathy“ er ýmist þýtt sem samhygð eða samkennd (samlíðan kæmi líka til greina). Átt er við hæfileikann til að finna til samkenndar með öðru fólki þegar það upplifir tilfinningar eins og t.d. gleði eða sorg. Venjulegt fólk ber ekki aðeins kennsl á slíkar tilfinningar annarra heldur getur líka fundið þær hjá sjálfu sér; samglaðst eða samhryggst.
 
 
 
 
 
 

Gert 22. ágúst 2011
Harpa Hreinsdóttir