Til baka á forsíðu
 
Einelti
 

Einelti er stórt vandamál á mörgum vinnustöðum. Þar eru siðblindir mjög virkir gerendur. Skv. rannsókn Ástralans Clive Buddy eru áhrif siðblindra í einelti margföld miðað við fjölda þeirra. Hann segir: „Þar sem siðblindir eru á vinnustað er einelti marktækt algengara en ella. Einnig er yfirmaðurinn talinn óréttlátur við starfsmenn og áhugalaus um tilfinningar þeirra. [Þetta er án tillits til þess hvort yfirmaðurinn er sjálfur siðblindur eða ekki.] Niðurstaðan er sú að 1% starfsmanna, þ.e. þeir sem eru siðblindir, standa fyrir 26% af einelti á vinnustað.“ Hann kallar þessa siðblindu starfsmenn „corporate psychopaths“ enda var hann að rannsaka starfsmenn í fyrirtækjum sem einkenndust af einhvers konar skrifstofuvinnu (þ.e. ekki verkamenn). Til að teljast siðblindur þurfti að skora 75% eða hærra á siðblindukvarða Hare (PCL-R).1

Flest af því sem segir á þessari síðu má heimfæra almennt upp á starfsmannaeinelti og þarf ekki siðblinda til að standa fyrir því. Á hinn bóginn eru, eins og fyrr var sagt, áhrif siðblindra í einelti á vinnustöð ógnvænlega mikil.

Til eru margar skilgreiningar á einelti. Sjá má tvær slíkar hér:
 
Á Íslandi er einelti á vinnustað skilgreint þannig:

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.

Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi né endurtekinn kerfisbundið. [Var upphaflega: leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.]2

Eftirfarandi skilgreining á einelti virðist vera notuð nokkuð víða í Evrópu

Einelti í vinnu er þegar einhver er áreittur, móðgaður, útlokaður félagslega eða þegar reynt er að hafa neikvæð áhrif á vinnu einhvers. 

Ef á að kalla ákveðna hegðun eða ferli „einelti“ þá þarf það að vera síendurtekið og stöðugt (t.d. vikulega) og vara í ákveðinn tíma (t.d. í sex mánuði).

Einelti er stigmagnandi ferli þar sem sá sem fyrir verður lendir í lakari stöðu og verður skotspónn kerfisbundinnar, neikvæðrar félagslegrar hegðunar annarra. 

Ekki er hægt að kalla það einelti ef upp kemur „ágreiningur milli tveggja aðila“ þ.e. ef tilvikið er einstök uppákoma og ekki er um valdaójafnvægi að ræða.3

Einnig er til fjöldi lista yfir hvers konar athæfi gerendur eineltis beita. Hér eru 2 dæmi um svoleiðis lista, sem eiga jafnt við einelti af hálfu stjórnanda sem einelti af hálfu samstarfsmanns.
 
Birtingarmyndum sem þolendur eineltis merktu við, í könnun á einelti meðal ríkisstarfsmanna4, er hér snúið upp á gerendur:
 • Að hunsa faglegt álit og sjónarmið
 •  Að úthluta verkefnum sem eru ekki samboðin hæfni
 • Að liggja á upplýsingum sem hafa áhrif á mat
 • Að gagnrýna vinnu starfsmanns óhóflega
 • Að úthluta verkefnum með óraunhæfum markmiðum
 • Að fylgjast óeðlilega mikið með störfum starfsmanns
 • Að gera lítið úr eða hæðast að persónu einhvers
 • Að koma af stað slúðri / orðrómi um einhvern
 • Að sjá til þess að einhver er félaglega sniðgenginn
 • Að standa fyrir hrekkjum, óeðlilega mikilli stríðni eða hæðni í garð einhvers
 • Að hóta líkamlegu ofbeldi eða valdbeitingu
 • Að beita einhvern líkamlegu ofbeldi
Rayner og Höel (1997) hafa skilgreint vinnustaðareinelti með eftirfarandi hætti:

Ógnun sem beinist gegn faglegri hæfni: Athugasemdir sem endurspegla lítilsvirðingu; ásakanir um vanhæfni í starfi, gera lítið úr frammistöðu; auðmýkja og þá sérstaklega fyrir framan aðra.

Ógnun sem beinist að persónu einstaklingsins:Uppnefna, móðga, ráðast að þolanda með hrópum og öskrum; kúga til undirgefni; Kynferðislegt áreiti og líkamlegt ofbeldi; nota niðrandi orð um aldur, útlit, klæðaburð og hátterni; breiða út illgirnislegar lygar/kjaftasögur um þolanda og jafnvel að hringja heim til hans/hennar í tíma og ótíma.

Einangra og útiloka: Tilburðir í þá átt að hindra og standa í vegi fyrir að þolandi fái notið réttmætra tækifæra (sem öllum eru ætluð), stuðla að líkamlegri og/eða félagslegri einangrun; hamla upplýsingastreymi til þolanda, o.s.frv.

Óhóflegt vinnuálag: Markvisst unnið að því að íþyngja með vinnu og stuðla þannig að álagi og streitu; t.d. með því að leggja fyrir verkefni sem verður að klára á styttri tíma en mögulegt er og/eða „drekkja“ í verkefnum; trufla þolanda og skaprauna þegar síst varir og illa stendur á; gera óraunhæfar, vitlausar og tilviljunarkenndar kröfur um frammistöðu, o.s.frv.

Taka fólk á taugum: Stara á þolandann með ógnvekjandi svip og taka í gegn með látum ef verður á mistök; þrúgandi þögn; auðsýna tómlæti og fyrirlitningu; klifa stöðugt á mistökum/yfirsjónum; æpa ásakanir fyrir framan aðra; stuðla með ásetningi að óförum og/eða mistökum.5

Tíðni eineltis á vinnustað og þolendur eineltis

Einelti kjaftasögurÍslenskar rannsóknir sýna yfirleitt fram á að 8 - 10 % starfsmanna á vinnustað hafi orðið fyrir einelti skv. íslensku skilgreiningunni.6  Skv. þeim virðist lítill sem enginn munur á hlutfalli kvenna og karla sem verða fyrir einelti. Niðurstöður fjölmennustu rannsóknarinnar voru t.d. að rúmlega 10% ríkisstarfsmanna telja sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum en ekki mældist marktækur munur milli kynja. Aftur móti verða konur verða meira fyrir barðinu á einum geranda en karlar mörgum.7  Könnun sem mældi einelti meðal fólks á mörgum fjölbreyttum vinnustöðum sýndi að tæplega 11% töldu sig hafa orðið fyrir einelti á sl. ári, allt frá einu sinni í mánuði til nokkrum sinnum í viku en ekki mældist munur eftir kynjum.8

Í afar fjölmennri og víðtækri norskri rannsókn, 1996, var enginn munur á því hvort karlar eða konur urðu fyrir einelti. Sama kom fram í sænskri rannsókn 1996.9

Tíðni eineltis á vinnustað mælist fremur lág á Norðurlöndunum miðað við t.d. Bretland, svo ekki sé minnst á Ameríku og einelti virðist stórkostlegt vandamál í Ástralíu.

Einelti getur brotið fólk niður bæði á sál og líkama. Fórnarlömb eineltis bera oft merki áfallastreitu um langa hríð þótt þau yfirgefi vinnustaðinn. Efni færslunnar býður ekki upp á umfjöllun um þolendur. Hafi menn áhuga á slíku má benda á BS ritgerð Guðrúnar Maríu Þorsteinsdóttur, júní 2010, sem heitir Einelti á vinnustöðum: áhrif á líðan og heilsu og er aðgengileg á vefnum.
 

Gerendur eineltis

Það er dálítið undarlegt að í hinni stóru könnun fjármálaráðuneytisins, 2008, skuli ekki hafa verið skoðað kyn gerenda, a.m.k. eru hvergi birtar niðurstöður um slíkt. En í flestum tilfellum var gerandi samstarfsmaður (44% tilvika) en næsti yfirmaður í 31% tilfella.

Í könnun meðal starfsmanna í VR, 2001, kom fram að gerandinn var oftast samstarfsmaður, yfirmaður í nokkrum tilvikum og undirmaður í 3 tilvikum. Gerendur voru oftar karlmenn, 24 karlar á móti 18 konum, og gerendur voru oftast einir að verki. 7 karlmenn viðurkenndu að hafa lagt aðra í einelti.

Konur leggja í eineltiÍ  könnun meðal starfsmanna ríkisstofnana (tveggja ráðuneyta og einnar ótilgreindrar stofnunar), 2006,  kom fram að í flestum tilfellum er gerandi eineltis yfirmaður þess sem fyrir eineltinu verður eða annar stjórnandi. Þar mældist afar mikill munur milli stofnana og mætti kannski skrifa þann mun að miklu leyti á yfirmann / yfirmenn þeirra.

Í íslenskri rannsókn sem gerð var meðal starfmanna banka og sparisjóða, 2002, kom í ljós að 8% höfðu orðið fyrir einelti. Algengast var að bankaritarar hefðu verið beittir einelti (11,2%)  en sjaldgæfast að yfirmenn væru lagðir í einelti (3,8% þeirra). Yfir 80% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni voru konur og því enginn kynjamunur mældur í niðurstöðum.10

Í norskum og sænskum rannsóknum frá 1996 voru karlmenn oftar gerendur eineltis (49% tilvika), 30% fórnarlamba sögðu að konur hefðu lagt sig í einelti og 20% höfðu orðið fyrir barðinu á bæði konum og körlum. Auk þess kom fram að karlkyns þolendur eineltis höfðu oftast verið lagðir í einelti af körlum meðan konur voru lagðar í einelti af báðum kynjum, oftast þó af öðrum konum. Bent var á að kynjaskipt starfsumhverfi gæti þarna skipt máli.11
 

Gerendur eineltis eru flokkaðir á mismunandi máta og mismunandi nákvæmlega. Hér er tiltölulega einföld bresk flokkun á gerendum og aðferðum þeirra:

*Stjórnanda-einelti (Corporate bullying) [Ath. að „Corporate bully“ er alveg eins notað yfir starfsmann í fyrirtæki sem leggur samstarfsmenn sína í einelti] er þegar vinnuveitandi kemst upp með að misnota starfsmann af því hann veit að lagagreinar taka ekki á þessu og erfitt er að fá aðra vinnu, t.d.:
- neyðir starfsmanninn til að vinna 60/70/80 tíma á viku og gerir líf hans að helvíti ef hann mótmælir þessu;
- svíkur starfsmann um réttmæt frí eða veikindarétt
- njósnar um starfsmenn, t.d. hlustar á símtöl þeirra
- yfirheyrir starfsmenn um veikindi um leið og þeir snúa úr veikindaleyfi
- lítur á starfsmann sem þjáist af streitu vegna lélegs vinnuumhverfis og eineltis, sem aumingja
- „hvetur“ aðra starfsmenn til að ljúga upp á kollega sína
- „hvetur“ starfsmenn til að lækka starfshlutfall; hver sem andmælir fær aldeilis að finna til tevatnsins.

*Stofnanaeinelti (Institutional bullying) er sambærilegt stjórnandaeinelti og verður þegar einelti er orðið inngróið og samþykkt sem hluti vinnustaðarmenningar. Fólk er fært til í starfi, skammtímavinnusamningar koma í stað langtímavinnusamninga og því fylgir hótun um að „samþykkja þetta eða…“, vinnuálag er aukið, vinnuskipulagi breytt, hlutverkum á vinnustað er breytt o.s.fr. - allt án þess að stjórnandi ráðfæri sig við nokkurn mann.

*Kúnna-einelti (Client bullying) er þegar starfsmenn eru lagðir í einelti af þeim sem þeir þjóna. T.d. eru kennarar lagðir í einelti og á þá ráðist af nemendum og foreldrum þeirra, hjúkrunarfræðingar af sjúklingum og fjölskyldum þeirra, bankastarfsmenn, afgreiðslumenn, starfsmenn í byggingariðnaði o.fl. eru lagðir í einelti af viðskiptavinum. Oft krefst viðskiptavinurinn meints réttar síns (t.d. til betri þjónustu) á móðgandi eða niðurlægjandi hátt, jafnvel með líkamlegu ofbeldi. Kúnna-einelti getur líka falist í því að starfsmenn leggi viðskiptavini eða skjólstæðinga í einelti.

*Rað-einelti (Serial bullying) er þegar alla truflun á vinnustað má rekja til eins einstaklings, sem leggst á hvern starfsmanninn á fætur öðrum og gerir sitt besta til að tortíma þeim. Þetta er algengasta form eineltis; umfjöllun um einelti lýsir gjarna og skilgreinir rað-eineltisgeranda, sem sýnir dæmigerð einkenni um siðblinduhegðun. Flest fólk þekkir a.m.k. einn sem fellur undir lýsingu á rað-eineltara; flest fólk áttar sig ekki á að viðkomandi er siðblindur (socialized psychopath eða sociopath).

Einelti á vinnustađ*Hópeinelti (Gang bullying) er raðeineltir ásamt vinnufélögum. Ef eineltirinn er úthverfur (extrovert) er hann líklegur til að leiða eineltið fyrir allra augum, t.d. gæti hann tekið til að hrópa og öskra. Ef eineltirinn er innhverfur (introvert) þá heldur hann sig til hlés, kyndir undir ólætin en tekur ekki virkan þátt sjálfur og er því erfiðara að bera kennsl á hann. Algeng aðferð slíkrar persónu er að segja öllum mismunandi sögu - venjulega um hvað aðrir hafa víst sagt um þá - og hvetja síðan hvern og einn til að trúa því að hann sé sá eini sem hermi satt og rétt frá. Innhverfir eineltarar eru hættulegastir. Helmingur fólksins í hópnum er fegið tækifærinu til að haga sér illa, völd og stjórn vekja því ánægju, því líkar að vera undir verndarvæng geranda eineltisins og hreppa hrós hans. Hinn helmingur hópsins er þvingaður til að taka þátt, venjulega af ótta við að verða ella næstu fórnarlömb. Ef eitthvað fer úrskeiðis verður einn af þessum sem voru þvingaðir útnefndur sökudólgur og varpað fyrir reið fórnarlömb eineltisins sem snúast til varnar. Rað-eineltarar hafa mikla unun af því að kynda undir ósætti og fylgjast með öðrum deila, sérstaklega þeim sem gætu annars dregið neikvæðar upplýsingar um rað-eineltarana fram í dagsljósið.

*Rafrænt einelti (Cyber bullying) er misnotkun á tölvupósti, spjallborðum á netinu eða fleiru til að senda illskeytapósta (flame mails). Rað-eineltarar (serial bullies) hafa fáa samskiptahæfileika, stundum enga og ópersónulegt eðli tölvupósta hentar vel til að hrinda af stað deilum.
 
 

Í umhverfi þar sem einelti er normið verða flestir á endanum annað hvort að gerendum eða fórnarlömbum. Það eru fáir sem standa hjá því flestir sogast inn í þetta fyrr eða síðar. Þetta snýst um að lifa af: Annað hvort verðurðu gerandi eineltis og kemst hjá því að verða fórnarlamb eða þú mótmælir eineltinu og neitar að taka þátt í því, sem mun leiða til þess að þú verður lögð/lagður í einelti, áreitt(ur), trampað á þér og loks gerð(ur) að sökudólgi uns heilsa þín lætur undan og þú brotnar saman, kemst svo að því að þú verður óvænt látin(n) víkja vegna niðurskurðar eða þér er sagt upp að ósekju.12

Þetta síðasttalda í bresku greininni sem vitnað er í hljómar ansi napurt. En staðreyndin er sú að fórnarlömbum eineltis veitist erfitt að sækja rétt sinn. Í stóru könnuninni á einelti meðal  ríkisstarfsmanna kom t.d. fram að formlegum kvörtunum um einelti var ekki fylgt eftir með viðeigandi hætti í 76% tilvika.

Í leiðbeiningum Alþjóðasamtaka umboðsmanna (hugtakið „ombudsman“ hefur mismunandi merkingu eftir löndum en mætti segja að það samsvaraði oft því sem við köllum „umboðsmann Alþingis“ - sjá nánar Ombudsman á Wikipedia) er vakin sérstök athygli á því að venjulegar aðgerðir og verklagsreglur í eineltismálum henti ekki ef gerandi er siðblindur.13 Robert D. Hare bendir á að siðblindum takist oft vel að tala sig út úr vandræðum. Þeir segi t.d. „Ég hef lært mína lexíu“; „Þú hefur orð mitt fyrir því að þetta gerist ekki aftur“; „Þetta var bara einn stór misskilningur“; „Treystu mér“.14 Það má því ætla að þegar siðblindur leggur samstarfsmann sinn eða undirmann í einelti endi slíkt með því að starfsmaðurinn hætti eða sé látinn hætta en eineltarinn haldi stöðunni. Siðblindum tekst nefnilega oft að gera aðra að sökudólgum og snúa málunum sér í hag. Reyndar mælir Hare eindregið með því að fólk flýi siðblinda, einnig í starfi; reyndu að forðast siðblindan samstarfsmann þinn eins og unnt er. Ef ástandið er óbærilegt skaltu reyna að fá flutning í starfi eða grípa til þess örþrifaráðs að hætta í vinnunni.15
 
 

Siðblindu er að finna víðast hvar á vinnustöðum; þeir standa fyrir ótrúlega stórum hluta eineltis miðað við hve fáir þeir eru; siðblindir geta eitrað verulega út frá sér á vinnustað og það er ótrúlega erfitt að eiga við eineltismál þegar gerandinn er siðblindur -  ekki hve síst vegna þess að sá mun reyna að snúa málum sér í hag, kenna fórnarlambinu um og halda því fram að sjálfur sé hann lagður í einelti (jafnvel af fórnarlambinu). Þeir sem huga að einelti á vinnustað, t.d. yfirvöld og stéttarfélög, ættu að kynna sér siðblindu og hvaða áhrif siðblindir hafa á umhverfi sitt.


1 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“. Journal of Business Ethics (25. nóvember 2010), s. 1-13. Greinin var skoðuð á Vefnum 5. sept. 2011

Úrtakið í rannsókn Clive Boddy voru 346 velmenntaðir menn í ýmsum viðskiptatengdum starfsgreinum, í Perth, Ástralíu. Þar sem siðblindir voru ekki á vinnustað töldu menn sig hafa orðið vitni að  einelti gegn öðrum að meðaltali 9 sinnum á ári (sjaldnar en mánaðarlega) en þar sem siðblindur var á vinnustað var tíðnin 64,4 sinnum á ári (oftar en vikulega). Það skal ítrekað að verið var að skoða siðblinda í hópi allra starfsmanna en ekki siðblinda stjórnendur eingöngu. Aftur á móti kom fram að væri siðblindur starfsmaður á vinnustaðnum hafði slíkt yfirleitt slæm áhrif á stjórnunarstíl yfirmannsins. Ekki er ólíklegt að siðblindir sækist eftir yfirmannsstöðum eins og þeir mögulega geta og Boddy vitnar síðan í Babiak og Hare sem hafa rannsakað stjórnendur viðskiptafyrirtækja sérstaklega: „Hare og Babiak fundu út að af 7 háttsettum stjórnendum fyrirtækja (af um 200) sem greindust siðblindir voru 2 einnig gerendur eineltis. Þeir benda á að þetta háa hlutfall (þ.e. að u.þ.b. 29% af siðblindum stjórnendum fyrirtækja séu einnig gerendur eineltis) sé staðfest í öðrum rannsóknum.“

2 Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000/2004.

3 Dagrún Þórðardóttir. 2006, s. 15. Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða (MS verkefni í Stjórnun og stefnumótun, Viðskipta-og hagfræðideild HÍ). Skoðað á vef Vinnueftirlitsins 5. sept. 2011.

4 Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008, s. 17-18. Ritstjóri: Ágústa H. Gústafsdóttir. Skoðað á Vefnum 5.sept. 2011. Ath. að birtar voru niðurstöður um reynslu þolenda sem hér er snúið upp á gerendur.

5Einelti á vinnustað“ á Úttekt og úrlausn (upphaflega grein í tímaritinu FYRIRTÆKIÐ, 1.tbl., maí 2003). Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011.

6 Dagrún Þórðardóttir. 2006. Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða. Tafla með niðurstöðum íslenskra rannsókna á einelti á vinnustöðum er á s. 52. Tafla, sem sýnir tíðni eineltis á vinnustöðum skv. niðurstöðum rannsókna í fjölda landa, er á s. 43-45. Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011.

7 Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið, ágúst 2008, s. 6. Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011.

8 „BA verkefni um einelti meðal félagsmanna VR. Einn af hverjum tíu hefur orðið fyrir einelti“ í VR blaðinu 23. árg. 6. tbl., okt. 2001, s. 6-7. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011. (Í blaðagreininni er sagt frá könnun sem Hanna Lilja Jóhannsdóttir gerði í samvinnu við VR vorið 2001.)

9 Einarsen, Ståle. 2000. „Harassment and bullying at work: A review of the scandinavian approach“. Aggression and Violent Behavior, 5. árg. 4. tbl. júlí-ágúst 2000, s. 379-401. Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011.

10 Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Kristinn Tómasson. „Einelti á vinnustað, vinnuskipulag og líðan starfsmanna“ í Læknablaðinu 2004, 90. árg. 12. tbl., s. 847-51. Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011. Hér að ofan er vísað í hinar rannsóknirnar sem eru nefndar í bloggfærslunni.

11 Einarsen, Ståle. 2000. „Harassment and bullying at work: A review of the scandinavian approach“. Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011.

12Bullying“ á síðu Human Capital In Business, sem umræðuefni mánaðarins (Topic of the Month). Fram kemur að efnið sé fengið frá UK National Workplace Bullying Advice Line en hvorki höfundar né útgáfutíma er getið. Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011.

13 McCulloch, Barbara. 2010. „Dealing with Bullying Behaviours in the Workplace: What Works - A Practitioner’s View“. Journal of the International Ombudsman Association, okt. 2010, s. 39-51.  International Ombudsman Association.  Skoðað á Vefnum 5. sept. 2011.

14 Hare, Robert D. 1999, s. 64. Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us. The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)

15 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, s. 313.  HarperCollins, New York. (Bókin kom fyrst út árið 2006.)
 
 
 

Gert 5. september 2011
Harpa Hreinsdóttir